Skilnaður að borði og sæng
Skilnaður að borði og sæng (oft skammstafaður ‚skabos‘) er almennt hugsaður sem temprun á því að hjón skilji í fljótfærni og til að gefa fólki færi á að taka aftur upp samband að nýju. Takist það ekki virkar skilnaður að borði og sæng sem frestur fyrir hjónin til þess að semja um skilnaðarkjör sín á milli. Athuga ætti að skilnaður að borði og sæng er ekki hið sama og lögskilnaður hefur því alls ekki sömu réttaráhrif. Til að mynda geta hjón skilin að borði og sæng að meginreglunni til ekki gengið í nýtt hjónaband fyrr en lögskilnaðurinn er genginn í gegn.
Á Íslandi er sótt um leyfi til skilnaðar að borði og sæng hjá sýslumönnum sem er veitt þegar hjónin hafa leyst úr eða komið í ákveðinn farveg tilteknum úrlausnarefnum er varða börn þeirra (ef einhver) og eignarréttarleg málefni þeirra á milli. Við útgáfu leyfisins falla niður tiltekin réttindi og tilteknar skyldur milli hjónanna, eins og erfðaréttur þeirra eftir hvort annað, og mun það ástand halda áfram þar til leyfið fellur niður, til að mynda ef tilraun tekst hjá þeim að endurvekja samband sitt, eða lögskilnaður á sér stað. Möguleiki á að sækja um leyfi til lögskilnaðar er sex mánuðum eftir útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng ef bæði hjónin eru sammála eða tólf mánuðum ef þau eru ósammála.