Skólabænir í Bandaríkjunum

Skipulagt bænahald í ríkisreknum skólum í Bandaríkjunum hefur verið bannað síðan 1962 með úrskurði Hæstaréttar Bandaríkjanna í máli Engel gegn Vitale. Nemendum er hins vegar heimilt að fara með bænir í einrúmi eða taka þátt í skipulögðu trúarstarfi á vegum skólayfirvalda í frítíma sínum og utan hefðbundins skólatíma. Þessar reglur eiga ekki við um einkarekna skóla eða háskóla þar sem skipulegt bænahald er leyfilegt, heldur aðeins grunn- og framhaldsskóla þar sem mætingarskylda er í gildi og nemendur eru taldir áhrifagjarnari.[1]

Moye-grunnskólinn í borginni El Paso í Texas.

Deilur um skólabænir breyta

Allt frá því á 18 öld var algengt að bandarískir almenningsskólar hæfu skóladaginn með bæn eða á lestri úr Biblíunni. Kaþólikkar og aðrir trúarhópar voru ósáttir með að mótmælendatrú væri gert hátt undir höfði með þessum hætti og stofnuðu sína eigin skóla. Þá varð heimakennsla algengari á 20. öldinni meðal annars vegna þessa. Árið 1949 var biblían lesin reglulega í skólum í að minnsta kosti 37 fylkjum Bandaríkjanna. Í tólf þeirra var ritningarlestur hluti af skyldunámi nemenda. Árið 1960 var biblíulestur liðinn, eða hluti af námskrá, í 42% bandarískra skóla og 50% voru með einhvers konar skipulagt trúarstarf í kennslustofum.[2]

Árið 1962 komst Hæstiréttur Bandaríkjanna að þeirri niðurstöðu að skipulegt bænastarf stæðist ekki trúfrelsisákvæði Stjórnarskrár Bandaríkjanna. Árið 1992 komst Hæstiréttur Bandaríkjanna svo einnig að þeirri niðurstöðu að jafnvel þótt skólar skylduðu ekki nemendur til að fara með bænir heldur fengu þeir sjálfir að ákveða hvort þeir vildu taka þátt í þeim eða ekki, þá stæðist það ekki stjórnarskrá því það einangraði nemendur frá meirihluta þeirra sem hélt áfram að biðja, og ýtti einnig undir hópþrýsting.[3]

Fjölmargir voru ósáttir við úrskurð Héraðsdóms Bandaríkjanna árið 1962, og þá úrskurði sem síðar áttu eftir að falla og takmörkuðu enn frekar skipulagt trúarstarf í skólum, en ekki tókst að koma stjórnarskrárbreytingum í gegnum þingið til að gera skólum kleift að halda áfram að bjóða upp á skólabænir. Málið er gríðarlega umdeilt í Bandaríkjunum enn þann dag í dag þar sem mörgum þykir vegið að trúfrelsi með þessum takmörkunum. Í könnun Gallup frá árinu 2014 voru 61% Bandaríkjamanna hlynntir því að leyfa daglegar bænir í kennslustofum og 37% voru á móti því. Til samanburðar voru 70% hlynntir daglegum skólabænum árið 1999.[4]

Umræður um skólabænir og sú skautun sem á sér stað í þeirri umræðu er gott dæmi um menningarstríðin í Bandaríkjunum. Donald Trump Bandaríkjaforseti gerði bænahald í skólum að umtalsefni í stjórnatíð sinni, líklega til að höfða til evangelískra kjósenda og annarra hópa sem hafa talað fyrir því að leyft sé að biðja í skólum. Í byrjun ársins 2020 sagðist hann ætla að draga úr fjármagni til skóla sem myndu ekki virða rétt nemenda til að iðka trú sína. Hann fundaði með fulltrúum trúarhópa og sagði í kjölfarið að stjórnvöld mættu aldrei koma á milli þjóðar og Guðs og að ríkisreknir skólar kæmu of oft í veg fyrir að nemendur gætu iðkað trú sína.[5]

Tilvísanir breyta

  1. „Engel v. Vitale | Definition, Background, & Facts“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 21. nóvember 2020.
  2. „School prayer in the United States“, Wikipedia (enska), 19. nóvember 2020, sótt 21. nóvember 2020
  3. „Lee v. Weisman | law case“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 21. nóvember 2020.
  4. Rebecca Riffkin (september 2014). „In U.S., Support for Daily Prayer in Schools Dips Slightly“. Gallup. Sótt nóvember 2020.
  5. Franco Ordonez (janúar 2020). „Trump Defends School Prayer. Critics Say He's Got It All Wrong“. NPR. Sótt nóvember 2020.