Skíðafélag Reykjavíkur
Skíðafélag Reykjavíkur var stofnað árið 26. febrúar 1914 og var fyrsta félagið sem hafði skíðaíþrótt að markmiði sínu. Skipulögð skíðaiðkun í Reykjavík hófst þó fyrst með stofnun Ungmennafélags Reykjavíkur haustið 1906. Fyrsti formaður Skíðafélagsins var L.H. Möller. Var hann formaður félagsins til ársins 1939, en þá tók við formennsku Kristján Ó. Skagfjörð.
Fyrir forgöngu L.H. Möllers og þáverandi meðstjórnanda hans í Skíðafélaginu var Skíðaskálinn í Hveradölum reistur árið 1934. Hann var fyrsti skíðaskálinn sem byggður var hér á landi. Á tímabili stóð félagið fyrir fjölmörgum skíðamótum, t.d. fyrsta landsmót skíðamanna 1937, Thule-mótin 1938 og 1939 og Landsmótið 1943.