Sjálfvirkt auðkenniskerfi

Sjálfvirkt auðkenniskerfi eða AIS (úr ensku: Automatic identification system) er kerfi fyrir sjálfvirka rakningu ferða skipa og báta. Kerfið notast við sendiviðtæki um borð í skipum og á landi á vegum skipaumferðarþjónusta. Með AIS geta skipaumferðarþjónustur og einstök skip og bátar fylgst með skipaumferð í námunda við sig sem dregur úr hættu á árekstrum. AIS-kerfin eru viðbót við ratsjá sem er líka notuð til að koma auga á hættu á árekstrum. ADS-útvarp er hliðstætt kerfi fyrir flugumferð.

Sérfræðingur Bandarísku strandgæslunnar notast við AIS og ratsjá til að fylgjast með umferð um hafsvæði.

AIS-kerfi senda út auðkenni skips, staðsetningu, ferð og stefnu. Gögnin er hægt að birta á kortaskjá, til dæmis með rafrænu sjókorta- og upplýsingakerfi um borð í öðrum skipum. AIS er mikilvægt öryggistæki fyrir vaktstöður og fyrir strandgæslur að fylgjast með skipaumferð. AIS byggist á VHF-sendiviðtækjum og GPS-staðsetningartækjum og getur tengst öðrum nemum, eins og snúðáttavita og beygjuhraðanema. Rakning skipa með AIS-senda fer fram í gegnum landstöðvar eða í vaxandi mæli með gervihnöttum sem geta numið AIS-merki þegar skipið er utan VHF-færis.

AIS var þróað á 10. áratug 20. aldar sem skammdrægt rakningarkerfi. Lárétt drægni AIS-útsendinga er aðeins um 74 km. Skip detta því út af AIS-kerfum í landi þegar þau eru komin úr landsýn. Eftir 2005 hófu sumir gervihnettir að nema AIS-merki þar sem lóðrétt drægni er miklu meiri, eða um 400 km.

Í Alþjóðasamningi um öryggi mannslífa á hafinu er krafa um að öll atvinnuskip yfir 300 tonn séu með AIS-sendiviðtæki og öll farþegaskip óháð stærð. Áhafnir skipa geta slökkt á AIS-sendiviðtækjunum af ýmsum ástæðum, en það getur kostað afskipti strandgæslu á viðkomandi hafsvæði.

Tenglar breyta