Metrabylgja
Metrabylgja eða VHF-bylgja (úr ensku, Very High Frequency) er útvarpsbylgja með tíðnisvið á milli 30 og 300 MHz. Bylgjulengd metrabylgju er því milli 1 og 10 metrar. Næsta tíðnisvið fyrir neðan metrabylgju er hátíðnibylgja (HF) og næsta tíðnisvið fyrir ofan er örbylgja (UHF).
Útsendingar á metrabylgju nást í meginatriðum í sjónlínu og stöðvast við hæðir og fjöll. Þær geta ferðast eilítið lengra en sjóndeildarhringurinn vegna endurkasts, eða allt að 160 km. Metrabylgjan er mest notuð fyrir FM-útvarp, sjónvarpsútsendingar, talstöðvarsamskipti á landi og sjó, stafrænar hljóðútsendingar, útvarpsmótöld og samskipti radíóamatöra. Flugumsjón notast líka við metrabylgju að hluta. Metrabylgjan er hæsta tíðnin sem hægt er að nota með litlum handsenditækjum.