Sigurjón Rist, vatnamælingamaður, fæddist á Akureyri 29. ágúst 1917, lést í Reykjavík 15. október 1994. Foreldrar hans voru hjónin Margrét Sigurjónsdóttir (1888 - 19219) húsmóðir á Akureyri, og Lárus J. Rist, (1879 - 1964) sund- og fimleikakennari á Akureyri og síðar í Hveragerði.

Nám og störf

breyta

Sigurjón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1938, stundaði síðan nám í heimspeki og haffræði við Kaupmannahafnarháskóla 1938-39, en hvarf heim frá námi vegna heimsstyrjaldarinnar síðari sem þá var skollin á. Á árunum 1948-49 lagði hann stund á vatnafræði hjá Norges Vassdragsvesen og árið 1966 var hann hjá hjá Geological Survey í Bandaríkjunum. Hann var umsjónarmaður með síldveiðiskipum og síldarsöltun hjá Nirði hf. á Akureyri og Siglufirði 1938-41. Árin 1942-46 rak hann bifreiðaviðgerðaverkstæði hjá KEA og Mjölni hf. á Akureyri. Sigurjón hóf störf hjá raforkumálastjóra sem forstöðumaður vatnamælinga árið 1947 og var forstöðumaður Vatnamælinga Orkustofnunar frá 1967 til 1987. Hann var frumherji í íslenskum vatnamælingum og kom á kerfisbundnum rennslismælingum í vatnsföllum landsins, annaðist dýptarmælingar og kortlagningu stöðuvatna og sá um útgáfu árlegra rennslismæligagna hjá Orkustofnun.

Félagsstörf

breyta

Sigurjón Rist lét allmikið til sín taka í félgsmálum. Hann var í stjórn Ferðafélags Akureyrar um skeið og formaður þess 1946-47. Þá var hann um langt árabil í stjórn Jöklarannsóknafélags Íslands allt frá stofnun þess 1950 og formaður þess um skeið. Formaður Vatnafræðifélags Íslands var hann frá 1979-1985. Vann í frístundum með sjálfboðaliðum að lagningu bifreiðaslóða um hálendi Íslands á árunum 1940-46, einkum upp úr Eyjafirði, um Sprengisand og Ódáðahraun. Hann var þátttakandi í fransk-íslenska Vatnajökulsleiðangrinum 1951.

Rannsóknir, ritstörf o.fl.

breyta

Eftir Sigurjón liggur fjöldi ritgerða um vatnsföll og rennsli þeirra og um jökla og jöklamælingar. Einnig bækurnar Íslensk vötn I sem raforkumálastjóri gaf út 1956 og Vatns er þörf sem Menningarsjóður gaf út 1990.

Hermann Sveinbjörnsson, fréttamaður, skráði æviminningar Sigurjóns í bókinni "Vadd'út í", útg. 1989. Sigurjón var sæmdur heiðursmerki Jöklarannsóknafélags Íslands 1970, riddarakrossi íslensku fálkaorðunnar 1986 og heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands 1990.

Einkahagir

breyta

Kona Sigurjóns var María Sigurðardóttir, viðskiptafræðingur. Dætur þeirra:

  • Rannveig Rist, f. 9. maí 1961, verkfræðingur, forstjóri ÍSAL
  • Bergljót Rist, f. 28. febrúar 1966, dýralæknir og leiðsögumaður.