Saxbauti, hakkað buff, hakkabuff eða bara buff er matarréttur gerður úr hökkuðu kjöti, oftast nautakjöti. Hakkið er kryddað og oft blandað hveiti og eggjum og síðan mótað í hringlaga buff sem steikt eru á pönnu. Með þessu er algengt að hafa steiktan lauk í brúnni sósu, soðnar kartöflur og oft rauðkál, rauðrófur, sýrðar gúrkur og sultu.

Hálfdós af niðursoðnum saxbauta frá KEA. Saxbauti fékkst í heildósum, sem innihéldu sjö buff hver, og hálfdósum, en í þeim voru fjögur buff.

Rétturinn er algengur í Danmörku en þekktur um öll Norðurlönd og víðar og oft talinn danskur þótt ýmiss konar buffkökur úr hökkuðu kjöti séu þekktar víða um lönd. Til Íslands barst hann frá Danmörku og sést fyrst getið á 19. öld.

Heitið saxbauti er íslenskun á danska heitinu hakkebøf og kom fyrst fram í nýyrðalista Orðanefndar Verkfræðingafélagsins 1926.[1] Það hefur einkum verið notað um niðursoðin buff, fyrst af Sláturfélagi Suðurlands frá 1932 eða fyrr og síðan af Kjötiðnaðarstöð KEA frá miðjum sjöunda áratugnum þar til framleiðslu var hætt um 1990 og mun saxbauti í lauksósu hafa verið einna vinsælastur af niðursuðuvörum Kjötiðnaðarstöðvarinnar.[2]

Heimatilbúin hakkabuff, oft borin fram með steiktum lauk og steiktum eggjum, héldu þó áfram vinsældum sínum. Á síðari árum hafa sumir tekið saxbautaheitið upp að nýju og sést það meðal annars á matseðlum sumra skóla og leikskóla.

Tilvísanir

breyta
  1. [1] Lesbók Morgunblaðsins, 3. október 1926.
  2. [2] „Íslenskur matvælaiðnaður.“ Þjóðviljinn. 15. desember 1974.