Rauðkál
Rauðkál (Fræðiheiti Brassica oleracea var. capitata f. rubra) er káltegund sem telst til höfuðkáls eins og hvítkál og er afar líkt hvítkáli. Helsti munurinn á rauðkáli og hvítkáli er litur blaðanna, á rauðkáli eru þau rauð eða blárauð, bæði ytri og innri blöðin en ljósgræn á hvítkáli. Rauðkál þekkist ekki villt. Uppruni þess er svæðið í kringum Miðjarðarhaf og þaðan barst það til Rússlands og frá Rússlandi til Evrópu. Rauðkál er seinsprottið og gerir meiri hitakröfur en hvítkál. Litur rauðkáls fer eftir sýrustigi jarðvegs, verður rauðara eftir því sem jarðvegur er súrari. Rauðkál er vanalega soðið með ediki til að varðveita rauðan lit blaðanna. Rauðkálssafa má nota sem einfaldan mæli til að mæla sýrustig.