Saltvíkurhátíðin

Saltvík '71 eða Saltvíkurhátíðin var útihátíð sem haldin var um hvítasunnuhelgina 28.-31. maí árið 1971 í Saltvík á Kjalarnesi. Jörðin var þá rekin sem útivistarvettvangur fyrir börn á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkur. Ákveðið var að halda hátíðina til að reyna að stemma stigu við óskipulegum samkomum ungs fólks úti á landi yfir þessa helgi þar sem þótti bera á miklum drykkjuskap.

Þetta tókst þó illa því talsverð ölvun varð á hátíðarsvæðinu, sérstaklega um kvöldið þegar skemmtistöðum var lokað í Reykjavík og straumur leigubíla flutti eldra fólk á hátíðarsvæðið. Talið er að þegar mest var hafi um tíu þúsund manns verið á svæðinu. Seldir aðgöngumiðar voru um átta þúsund. Rigning setti líka mark sitt á hátíðina. Löggæsla var höfð í lágmarki og ekki leitað á fólki við hliðið, en einhverjir gengu um svæðið og helltu niður áfengi fyrir unglingum. Hjálparsveit skáta sá um fyrstu hjálp. Talsverð umræða spannst um hátíðina eftir helgina og var Æskulýðsráð gagnrýnt af mörgum fyrir að standa að henni.

Hljómsveitir og tónlistarfólk sem komu fram á hátíðinni voru Arkimedes, Dýpt og Tiktúra, Ævintýri, Tilvera, Jeremias, Akropolis, Júmbó, Torrek, Trix, Mánar og Ingvi Steinn söngvari, Trúbrot, Náttúra, Ríó Tríó, Þrjú á palli, Kristín og Helgi, Árni Johnsen, Lítið eitt og Bill og Gerry, Roof Tops, Haukur og Plantan.

Tenglar

breyta