Saltkjöt og baunir

Saltkjöt og baunir er íslenskur réttur sem er á borðum á fjölmörgum íslenskum heimilum á sprengidaginn en er þó alls ekki bundinn við hann eingöngu og var áður algengur allan ársins hring.

Saltkjöt og baunir.

Rétturinn er súpa úr gulum hálfbaunum og grænmeti, oftast kartöflum, gulrófum og gulrótum, ásamt söltuðu lambakjöti sem ýmist er borðað með súpunni af sérstökum diski eða skorið í bita og borðað í súpunni. Svipaðar súpur eru algengar víðast hvar í Norður-Evrópu, svo og í Bandaríkjunum og Kanada, en yfirleitt er notað saltað svínakjöt í þær. Margir bragðbæta líka íslenska baunasúpu með dálitlu beikoni.

Á stórum seglskipum á skútuöld var gulbaunasúpa daglegur matur ásamt skipskexi en saltað kjöt (nauta-, svína- eða kindakjöt) borið fram með súpunni á sunnudögum.

Saltkjöt og baunir, túkall breyta

Lagstúfurinn „Saltkjöt og baunir, túkall“ er oft sunginn þegar sprengidagurinn fer að nálgast en er einnig oft sönglaður til merkis um að einhverju sé lokið, til dæmis skemmtiatriði. Það mun hafa verið skemmtikrafturinn Baldur Georgs sem var upphafsmaður þessa en lagstúfinn er að finna á plötu með Baldri og Konna frá 1954. Baldur kann að hafa tekið þetta eftir bandarískum rakarakvartettum sem luku oft atriðum sínum með því að söngla „Shave and a haircut, two bits“ en „two bits“ var slanguryrði yfir 25 senta pening í Bandaríkjunum. Lagstúfurinn er þó mun eldri og algengur í mörgum gömlum enskum barnaleikjum. [1]

Tilvísanir breyta

  1. [1] Uppruni lagstúfsins fundinn. Vísir, 17. febrúar 2010.

Tenglar breyta

Heimildir breyta

 
Wikibækur eru með efni sem tengist

* Alan Davidson (1999). The Oxford Companion to Food. Oxford University Press.