Saltkjöt er kjöt sem hefur verið saltað, ýmist með því að leggja það í saltpækil, þurrsalta það eða sprautusalta. Á Íslandi er alltaf átt við lambakjöt þegar talað er um saltkjöt og raunar er samkvæmt reglugerð eingöngu heimilt að nota heitið saltkjöt um saltað lambakjöt en aðrar kjöttegundir þarf að skilgreina nánar, til dæmis sem saltað svínakjöt eða saltað hrossakjöt.

Reuben-samloka með söltuðu nautakjöti (corned beef).

Söltunin dregur vökva út úr kjötinu með osmósuþrýstingi og drepur óæskilegar bakteríur, svo að kjötið varðveitist vel. Söltun var allt fram á 19. öld langalgengasta aðferðin til að geyma kjöt langtímum saman; kjöt var einnig reykt eða þurrkað en þá yfirleitt saltað áður. Á Íslandi var söltun aftur á móti lítið notuð sem geymsluaðferð langt fram eftir öldum vegna þess að salt var dýrt.

Með tilkomu niðursuðu og frystingar dró mjög úr mikilvægi söltunar sem geymsluaðferðar en saltkjöt var þó verkað áfram og nú bragðsins vegna, enda er saltað kjöt af ýmsu tagi aðalhráefni í mörgum hefðbundnum réttum víða um heim, svo sem íslensku saltkjöti og baunum, þótt sá réttur sé orðið ekki mikið borðaður nema á sprengidag. Einnig má nefna alls konar kjötvörur eins og beikon, skinku, pastrami og alls konar pylsur og annað sem gert er úr söltuðu kjöti.

Heimildir breyta

  • Alan Davidson (1999). The Oxford Companion to Food. Oxford University Press.
  • „Reglugerð um kjöt og kjötvörur. Á reglugerd.is. Skoðað 8. mars 2011“.