Sacagawea (líka skrifað Sakakawea eða Sacajawea[1]; maí um 1788 – 20. desember 1812 eða 9. apríl 1884[2][3][4]) var Lemhi-sjósjónakona sem 16 ára gömul hjálpaði leiðangri Lewis og Clark við að kanna Louisiana-landsvæðið. Sacagawea ferðaðist með leiðangrinum þúsundir mílna frá Norður-Dakóta til Kyrrahafsins, hjálpaði til við að koma á tengslum við frumbyggja Ameríku og lagði sitt af mörkum við að auka þekkingu leiðangursins á náttúrusögu mismunandi landsvæða.

Hluti af fresku í þinghúsi Montana sem sýnir Meriwether Lewis, William Clark og Sacagaweu.

Þegar hún var um 12 ára gömul var henni rænt ásamt öðrum konum af ránsflokki Hidatsa og árið eftir var hún seld til franska skinnaveiðimannsins Toussaint Charbonneau. Lewis og Clark réðu þau til leiðangursins, einkum vegna málakunnáttu Sacagaweu. Þá var hún 16 ára gömul og ófrísk af fyrsta barni þeirra Charbonneau. Barnið, Jean Baptiste Charbonneau, fæddist í ferð leiðangursins 1805. Eftir að leiðangrinum lauk 1806 bauð Clark þeim að setjast að í St. Louis sem þau gerðu 1809. Clark tók að sér að kosta menntun Jean Baptiste og ættleiddi hann og yngri systur hans síðar. Sacagawea og Charbonneau sneru aftur norður, að sögn þar sem hana langaði að fara aftur á heimaslóðir. Talið er að hún hafi látist úr óþekktum sjúkdómi í Fort Lisa í Norður-Dakóta árið 1812.

Kvennahreyfingin National American Woman Suffrage Association gerði hana snemma á 20. öld að tákni um gildi og sjálfstæði kvenna, lét setja upp styttur og veggspjöld í minningu hennar og lagði sig fram um að halda afrekum hennar á lofti.[5]

Tilvísanir breyta

  1. „Listen To Why You're Probably Pronouncing Sacagawea Wrong“. St. Louis on the Air. St. Louis Public Radio. 28. apríl 2014.
  2. „Hall of Great Westerners“. National Cowboy & Western Heritage Museum. Sótt 22. nóvember 2019.
  3. "Sacagawea." National Cowgirl Hall of Fame. 2017.
  4. "Sacagawea / Sacajawea / Sakakawea | Women of the Hall." National Women's Hall of Fame. 2003. Seneca Falls, NY.
  5. Fresonke, Kris, and Mark David Spence (2004). Lewis & Clark: Legacies, Memories, and New Perspectives. University of California Press. ISBN 978-0-520-23822-0.