Rauðberjarifs

(Endurbeint frá Rifs)

Rifsber (fræðiheiti: Ribes rubrum) eru ber af garðaberjaætt, upprunnin í Vestur-Evrópu og einkum ræktuð í norðanverðri álfunni. Talið er að farið hafi verið að rækta þau í görðum í Norður-Frakklandi og Belgíu á 17. öld.

Rifsber
Rifsber
Rifsber
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Steinbrjótsbálkur (Saxifragales)
Ætt: Garðaberjaætt (Grossulariaceae)
Ættkvísl: Ribes
Tegund:
R. rubrum

Tvínefni
Ribes rubrum
L.

Útlit

breyta

Berin vaxa á runnum sem geta orðið allt að tveggja metra háir en eru þó yfirleitt 1 - 1,5 metrar. Berin eru yfirleitt rauð að lit en til er ljósbleikt afbrigði sem kallast kirtilrifs eða hvít rifsber og er stundum talið sérstök tegund. Berin sitja í klösum á greinunum, oftast 3 - 10 saman, en einnig eru til afbrigði þar sem berin eru í löngum klösum, oft 10 - 20 saman.

Nýting

breyta

Berin eru súr-sæt og flest afbrigði er vel hægt að borða eins og þau koma fyrir þótt sum henti betur til þess en önnur. Oftast eru berin þó notuð í sultur og hlaup, saft, ávaxtagrauta og aðra ábætisrétti, kökur og bökur.

Rifsber á Íslandi

breyta

Rifsber hafa verið ræktuð á Íslandi frá því á síðustu áratugum 19. aldar. Þau þrífast vel í görðum og runnarnir bera yfirleitt ber, allt að 6 - 8 kíló á ári. Allt frá árinu 1830 eða fyrr hefur yrkið Rauð hollensk verið í ræktun á Íslandi. Það er mjög gamalt yrki og er upprunnið í Hollandi og kom fram fyrir 1729. Þetta er eitt elsta, ef ekki elsta yrkið sem þekkt er af rifsi.

Heimildir

breyta
  • „Berjarækt. Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands, 79. árgangur, 1982“.
  • „Skýrsla um nokkrar tilraunir til jurtaræktunar á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 7. árgangur 1889“.