RetRoBot
RetRoBot var íslensk hljómsveit en stofnendur hennar voru þeir Daði Freyr Pétursson, rafheili og söngvari, og Kristján Pálmi Ásmundsson, gítarleikari. Seinna bættust í hópinn Gunnlaugur Bjarnason, söngvari, og Guðmundur „Mummi“ Einar Vilbergsson, gítarleikari. Fyrsta lagið sem hljómsveitin gaf út var Generation. 31. mars sama ár vann RetRoBot Músíktilraunir sem haldnar voru í Austurbæ og nokkrum mánuðum síðar gaf hljómsveitin út stuttskífuna Blackout sem var þeirra eina plata.
RetRoBot | |
---|---|
Upplýsingar | |
Uppruni | Selfoss, Ísland |
Ár | 2012-2014 |
Stefnur | Elektrónískt indí-rokk |
Samvinna | Mixophrygian M-Band |
Meðlimir | Daði Freyr Pétursson Guðmundur Einar „Mummi“ Vilbergsson Gunnlaugur Bjarnason Kristján Pálmi Ásmundsson |
Fyrri meðlimir | Hörður Már Bjarnason Klemens Óli Sigurbjörnsson |
Saga
breytaHljómsveitin var stofnuð af æskuvinunum og grunnskólafélögunum Daða Frey Péturssyni og Kristjáni Pálma Ásmundssyni sem lengi höfðu spilað saman, meðal annars í hljómsveitinni Orchestra of Few. Árið 2011 ákváðu þeir svo að leiða hesta sína aftur saman og stofna hljómsveit sem „fengi fólk virkilega út á dansgólfið.“ Þeir hófust handa við að semja lagið Generation. Lagið var tekið upp á löngum tíma og voru hátt í 30 raddir teknar upp fyrir bakraddasöng. Nokkrum mánuðum síðar bættust í hópinn söngvarinn Gunnlaugur Bjarnason og gítarleikarinn Guðmundur Einar Vilbergsson. Þá var Generation fullklárað og sent á allar útvarpsstöðvar en engar voru undirtektirnar. Það var ekki fyrr en hljómsveitin gaf út aðra smáskífu sína Electric Wizard sem hjólin fóru fyrst að snúast en lagið fékk strax á fyrstu vikunni hátt í 10 þúsund spilanir á YouTube.
RetRoBot hélt sína fyrstu tónleika þann 2. febrúar á kvöldvöku nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands í sal skólans en Daði, Gunnlaugur og Mummi eru allir brautskráðir þaðan. Þar spilaði hljómsveitin þrjú frumsamin lög, Generation, Electric Wizard og Lost og eina ábreiðu, lagið Sneaky Boots eftir hljómsveitina Kiriyama Family en í desember 2011 hafði Daði Freyr gert remix af laginu fyrir RetRoBot.
Seinna fylgdu tvennir tónleikar á 800 Bar á Selfossi auk þess sem hljómsveitin flutti skemmtiatriði Fjölbrautaskóla Suðurlands í Gettu Betur viðureign skólans á móti Verzlunarskóla Íslands í mars 2012. Þar flutti hljómsveitin lagið Hitler var grafískur hönnuður úr söngleiknum Leg eftir Hugleik Dagsson. Gunnlaugur var auk þess í Gettu Betur-liði FSu sem tapaði naumlega fyrir Verzlunarskólanum en lokatölur voru 19-22.
Músíktilraunir
breytaRetRoBot tók þátt í Músíktilraunum í Austurbæ árið 2012. Hljómsveitin spilaði á þriðja undanúrslitakvöldina þann 25. mars og var kosin áfram af salnum en hljómsveitinni In the Company of Men var hleypt áfram af dómnefnd. Í umsögn Arnars Eggerts Thoroddsen í Morgunblaðinu tveimur dögum síðar kom eftirfarandi fram:
ReTroBot [sic] sögðust spila „elektrónískt indírokk“ í kynningartexta og verður henni trauðla betur lýst. Meðlimir komu ákveðnir til leiks, í samstæðum sviðsfötum og sviptu upp stuðvænu setti og salurinn var óðar á þeirra bandi. Lagasmíðar voru helst til þunnar en yfir það var breitt með áðurnefndri ástríðu og spilagleði.[1]
Úrslitakvöldið 31. mars spilaði RetRoBot í breyttri mynd en Mummi þurfti að vera viðstaddur fimmtugsafmæli móðurbróður síns í Danmörku. Því var Klemens Óli Sigurbjörnsson, gítarleikari og fyrrum skólafélagi Pálma úr Menntaskólanum við Laugarvatn, fenginn til að leysa Mumma af á úrslitakvöldinu. Að sögn hljómsveitarmeðlima gekk úrslitakvöldið vægast sagt „hörmulega“ og voru þeir því mjög undrandi þegar Óttarr Proppé, þáverandi formaður skóla- og frístundasviðs tilkynnti þá sem sigurvegara kvöldsins. Áður hafði Daði Freyr unnið verðlaun sem rafheili Músíktilrauna 2012.
Frá Músíktilraunum til Mixophrygian
breytaEftir sigurinn lá leiðin aftur heim á Suðurland þar sem RetRoBot var tekið fagnandi enda fyrsta hljómsveitin sem á rætur að rekja til Selfoss til að vinna Músíktilraunir. Fyrstu tónleikarnir eftir sigurinn voru í Pakkhúsinu á Selfossi en það hafði verið aðalæfingaaðstaða RetRoBot fyrir Músíktilraunir. Seinna fékk hljómsveitin svo fjárstyrk frá Sveitarfélaginu Árborg upp á 50 þúsund krónur.
Sumarið 2012 spilaði hljómsveitin á flestum skemmtistöðum Reykjavíkur og annarra bæja á Íslandi. Í ágúst sama ár fór hljómsveitin svo út til Hollands og spilaði þar á Westerpop hátíðinni í Delft. Stuttu eftir Hollandstúr hljómsveitarinnar veiktist Gunnlaugur Bjarnason og var greindur með einkirningasótt og þurfti því að draga sig í stutt hlé. Hörður Már Bjarnason, betur þekktur undir nafninu M-Band, leysti Gunnlaug af á meðan en RetRoBot og M-Band höfðu spilað mikið saman um sumarið. Gunnlaugur hafði meðal annars sungið lagið Love Happiness á fyrstu þröngskífu M-Bands og M-Band söng titillag Blackout.
Í október kom Blackout út og var henni vel tekið. Til dæmis skrifaði Björn Teitsson að platan væri „[f]ínasta frumraun hjá nýjustu útflutningsafurð Árborgar“ og gaf henni þrjár stjörnur af fimm mögulegum.[2]
Árið 2013 gaf RetRoBot svo út tvö ný lög, Insomnia og Something en einnig gáfu þeir út myndband fyrir fyrrnefnda lagið sem var leikstýrt og framleitt af Daða Frey en Atli Eyberg, vinur hljómsveitarmeðlimanna, fór með aðalhlutverk.
Hljómsveitin hélt áfram að halda tónleika árið 2013 en í mun minna mæli en þeir höfðu áður gert. Hljómsveitin kom síðast fram á Iceland Airwaves tónleikahátíðinni í nóvember 2013 en eftir það hætti hún að spila og hefur ekki komið opinberlega fram síðan.[3]
Daði Freyr flutti til Berlínar á haustmánuðum 2014 og stofnaði einmenningshljómsveitina Mixophrygian og gaf út sína fyrstu plötu 2. september 2015.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Allt heila galleríið“. Arnar Eggert Thoroddsen. Morgunblaðið, 27. mars, 2012, bls. 33.
- ↑ „Elektró-indí frá Árborg“. Björn Teitsson. Fréttablaðið, 28. desember, 2012, bls. 28.
- ↑ „Dagskrá Iceland Airwaves 2013“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 4. mars 2016. Sótt 11. október 2015.