Rasmus Lievog

Rasmus Lievog var norskur stjörnufræðingur sem var sendur til Íslands 1779 sem konunglegur stjörnuskoðari. Hann settist að í Lambhúsum á Álftanesi sem var hjáleiga frá Bessastöðum og bjó þar 1805. Þar lét hann reisa turn til stjörnuathugana, en auk stjörnuskoðunar fékkst hann við ýmiss konar mælingar, hann mældi sjávarföll, rannsakaði misvísun segulnálar, stundaði veðurathuganir og gerði uppdrætti af stöðum á Álftanesi og í Reykjavík.

Rasmus Lievog kom á eftir Eyjólfi Johnsoniusi stjarnfræðingi sem var skipaður stjörnuskoðari 1772 og gengdi því embætti til dauðadags árið 1775. Upprunalega átti Eyjólfur að hafa aðsetur á Snæfellsnesi en úr varð að hann var settur niður á Lambhúsum á Álftanesi og í hans tíð var byrjað að byggja stjörnuturninn.