Ragnheiður Pétursdóttir á rauðum sokkum
Ragnheiður Pétursdóttir (um 1494 – fyrir 1540) eða Ragnheiður á rauðum sokkum var húsfreyja á Svalbarði á Svalbarðsströnd á 16. öld og ættmóðir Svalbarðsættar síðari.
Ragnheiður var dóttir Péturs Loftssonar bónda í Stóradal í Eyjafirði, eins ríkasta manns landsins á sinni tíð og sonar Lofts Íslendings Ormssonar riddara, og konu Péturs, Sigríðar Þorsteinsdóttur, sem var sonardóttir Helga Guðnasonar lögmanns og Akra-Kristínar. Ekki er vitað um ástæðuna fyrir viðurnefninu en til er þessi kviðlingur um Ragnheiði, væntanlega ortur meðan hún var ógift í föðugarði:
- Ragnheiður á rauðum sokkum rekur hesta,
- enga vill hún utan presta
- auðnarlín sig láta festa.
Ragnheiður gerðist þó ekki fylgikona prests, heldur giftist hún Jóni Magnússyni ríka, lögréttumanni og bónda á Svalbarði, einum helsta höfðingja norðanlands. Þau eignuðust sjö börn sem upp komust og urðu flest nafnkunn en Ragnheiður náði aðeins að sjá þau elstu vaxa úr grasi því hún var dáin fyrir 1540. Börnin voru: Steinunn, sem fyrst var fylgikona séra Björns Jónssonar á Melstað, giftist svo Ólafi Jónssyni í Snóksdal og seinast Eggert Hannessyni; Sólveig kona Filippusar Brandssonar á Svínavatni á Ásum, sem vó Hrafn Brandsson lögmann; Þórdís kona Þorgríms Þorleifssonar í Lögmannshlíð; og synirnir, Svalbarðsbræður: Magnús prúði, Staðarhóls-Páll, Jón lögmaður á Vindheimum og Sigurður sýslumaður á Reynistað.
Heimildir
breyta- Jón Þorkelsson: Saga Magnúsar prúða. Sigurður Kristjánsson, Kaupmannahöfn, 1895.