Rúrí (fullt nafn Þuríður Rúrí Fannberg, fædd 1951) er íslenskur myndlistarmaður, myndlistarkona sem er þekkt fyrir ýmis útilistaverk eins og Regnbogann við flugvöllinn í Keflavík og Fyssu í Grasagarðinum í Reykjavík. Hún er einnig þekkt fyrir innsetningar eins og Glerregn sem sýnt var vorið 2001 í Listasafni Íslands og aftur sumarið 2023, og PARADÍS? – Hvenær? sem sýnt var á Kjarvalsstöðum vorið 1998.

Verk hennar eru hugmyndafræðilegs eðlis, en þau eru sett fram með margvíslegri tækni, svo sem skúlptúr, innsetningar, margmiðlunarverk, gjörningar, bókverk, kvikmyndir, myndbönd, hljóðverk, blönduð tækni tölvuvædd og gagnvirk verk. Listaverk hennar hafa verið sýnd á alþjóðlegum vettvangi, m.a. víða í Evrópu, í Ameríku og Asíu.

Menntun breyta

Rúrí er fædd í Reykjavík. Frá 1971-74 var hún í námi við Listaháskólann í Reykjavík. Á árunum 1974-75 nam hún svo málsmíði við Tækniskólann í Reykjavík. Frá 1976-78 lærði hún ný miðlun í De Vrije Academie Psychopolis, Den Haag, Hollandi.

Ferill breyta

Fyrsti opinberi gjörningur Rúrí var Gullinn bíll sem hún flutti árið 1974 í þeim tilgangi að vekja fólk til umhugsunar um lífsgæðakapphlaupið. Gjörninginn fluttu Rúrí, B. Gylfi Snorrason og óþekktir þátttakendur úr hópi áhorfanda. Hún gekk með sleggju á gullhúðaða bensbifreið í Austurstræti og hrópaði: „þú þræll ég vil ekki þjóna þér“. Aðra gjörninga eftir Rúrí má nefna skúlptúr í Gallerí SÚM í Reykjavík 1975 og Tillögu um breytingu á íslenska þjóðbúningnum til að laga hann að nútíma þjóðfélagsháttum 1. desember 1975. Þá klæddist hún íslenskum kvenbúningi, ísaumuðum bandaríska fánanum, á fjölmennum hátíðarfundi í Háskólabíói.

Rúrí hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín. Hún hlaut fyrstu verðlaun í keppni um skúlptúr við Flugstöð Leifs Eiríkssonar og einnig fyrir skúlptúr í Grasagarðinum Laugardal.

Árið 2003 var Rúrí fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum og sýndi þar verk sitt Archive-endangerded waters sem er gagnvirk fjöltækniinnsetning, óður til nátturúnnar og hugleiðing um gildi hennar í nútímanum.

Rúrí fékk riddarakross þann 17. júní 2008 fyrir framlag til íslenskrar og alþjóðlegrar myndlistar.

Helstu opinberu verk breyta

 • Blik / Reflections, Tetralogi (verk í fjórum þáttum),2011.Reykjavík Hotel Natura
 • Hlið, minnisvarði, 2003. Gufunesgarður
 • Ljósstafir, 1998. Árbæjarkirkja
 • Brynnir, 1995. Grasagarðurinn Laugardal
 • Stuðlar, 1990. Háskólabíó
 • Tileinkun til Sigríðar í Brattholti, 2002. Hafnarfjörður, Iðnskóli Hafnarfjarðar
 • Klakabönd, 2007. Bláa Lónið
 • Regnbogi, 1991. Flugstöð Leifs Eiríkssonar
 • Helgun, 2000. Í fjórum eyjum umhverfis Ísland, Skrúði, Hellisey, Flatey á Breiðafirði og Grímsey.
 • Kuopio, Finnlandi: Kuopio Observatorium,1995. Maria Jotuni Park
 • Helsinki, Finnlandi: Time Concrete, 1986. Hämeenlinna
 • Wanås, Knislinge, Svíþjóð: Observatorium, 1992. Wanås Foundation
 • Munchen, Þýskaland: Aqua – Silence, 2009. Seven Screens,höfuðstöðvar Osram
 • Ercolano, Ítalíu: Terra Vivax, 2005. útilistasafninu Creator Vesevo,Þjóðgarði Vesuvius

Helstu sýningar: breyta

 • 1992 Afstæði, Kjarvalsstöðum, Reykjavík
 • 1998 Paradís? – Hvenær?, Kjarvalsstöðum, Reykjavík
 • 2003 Archive - Endangered Waters,50th International Art Exhibition—La Biennale di Venezia, Venice, Italy, Laufey Helgadóttir curator
 • 2006 Tileinkun, gjörningur og innsetning í Almannagjá, Þingvöllum
 • 2009 AQUA – Silence, Seven Screens, Osram Art Projects, Munchen, Þýskalandi
 • 2012 Rúrí – Yfirlitssýning, Listasafn Íslands. Reykjavík, Christian Schoen
 • 2013 Archive- Endangered Waters, Nordic Cool 2013, The Kennedy Center, Washington DC, febrúar 2013
 • 2023 Rúrí - And Now What / E agora?, International Museum of Contemporary Sculpture – MIEC, Santo Tirso, Portugal

Gagnrýni og viðtöl breyta

Eftirfarandi var skrifað í Fréttablaðinu 14. mars 2012 í sambandi við yfirlitssýningu Rúríar í Listasafni Íslands:

 
"Hún kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að gjörningalist en vel mætti segja að hún sé okkar Marina Abramovic sem sjálf hefur gert tilkall til ömmu-titilsins. Dirfska Rúríar sem tilraunalistamanns hefur birst í gjörningum sem hafa þótt ganga undrum næst og það er gaman að sjá þessi sniðugu bernskubrek listakonunnar saman komin í smekklegum römmum, uppstækkuð og jafnvel endurgerð í fallegum sölum Listasafns Íslands.

[...] Hápunktur sýningarinnar er myndband af tilfinngaþrungnum gerningi í almannagjá sem ber nafnið Tileinkun II, frá árinu 2006. Í honum svamlar listakonan í Drekkingarhyl og finnur fatadruslur kvenna sem fyrr á öldum var drekkt í hylnum fyrir lauslæti. Rúrí hefur sagst vonast til þess að hafa með gjörningnum hreinsað mannorð kvennanna, veitt þeim uppreisn æru. Það virðist hafa tekist og maður heyrir ekki lengur nokkurn mann hallmæla þessum ólánsömu konum í almannagjá og er þó ýmislegt látið flakka á veraldarvefnum þegar kemur að femínistum og klámi. Það væri samt vafasamt að kalla Rúrí femínista þótt vissulega hafi hún daðrað við hann á tímabili, hún er einfaldlega með sterka réttlætiskennd eins og fólk af hennar kynslóð. Í nýlegu viðtali við Fréttablaðið sagði hún „Ofbeldi finnst mér ekki eiga nokkurn rétt á sér, í hvaða mynd sem er.""[1]

 

Í ávarpi Katrínar Jakobsdóttur við opnun sýningar á verkum Rúríar i Listasafni Íslands, 2. mars 2012, segir meðal annars:

 
Rúrí býr til nýja sýn á reynsluheim okkar: landið, söguna, náttúruöflin og það hvernig við Íslendingar mátum okkur inn í heiminn.[...]

Verk Rúríar eru oft pólitísk í eðli sínu og það er vel. Landsmenn – og stjórnmálamenn þeirra á meðal – þurfa nefnilega á annars konar sýn á hagsmuni og hreyfiöfl samfélagsins að halda. Fjölmiðlar miðla til okkar sinni útgáfu af veruleikanum en sá veruleiki er séður í gegnum ákveðna linsu, eða fer í gegnum prisma-gler og út kemur ákveðinn regnbogi eða ljósbrot (svo að ég noti „rúrísk“ hugtök). Listamenn sýna okkur annars konar regnboga með sínum glerjum og linsum. Þeirra frelsi til gagnrýni er annað en það sem leyfist í hinu opinbera sviðsljósi fjölmiðlanna."[2]

 

Í viðtali við Rúrí í Fréttatímanum 2. mars 2012 segir hún: “Vissulega er ég pólitísk en það er pólitík í víðum skilningi, allt sem við kemur mannlegu samfélagi,“[...] „Ég held að það sé hlutverk listarinnar að tendra athyglina.“[3]

Tilvísanir breyta

 1. Vísir.is - Gjörningar sem ganga undrum næst
 2. Framlag listamanns til samfélagsumræðu - Mennta- og menningarmálaráðuneytið
 3. Hlutverk listarinnar er að tendra athyglina - Fréttatíminn

Heimildir breyta

Tenglar breyta