Pungrækjur (Fræðiheiti : cumacea) er ættbálkur innan stórkrabba sem telur meira en 1400 tegundir sem finnast um allan heim. Við Ísland hafa fundist um 30 tegundir pungrækja. Flestar voru uppgötvaðar í danska Ingolf-leiðangrinum, sem farinn var 1895 til 1896.

Pungrækjur
Pungrækja af tegundinni Iphinoe trispinosa.
Pungrækja af tegundinni Iphinoe trispinosa.
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking: Krabbadýr (Crustacea)
Flokkur: Stórkrabbar (Malacostraca)
Yfirættbálkur: Peracarida
Ættbálkur: Cumacea
Krøyer, 1846 [1]

Líffræði

breyta

Flestar tegundir eru 1 til 15 millimetrar að lengd en sumar geta verið allt að 3 sentimetrar. Greinilegur munur er á karl- og kvendýrunum. Kvendýrin eru einnig fleiri og í flestum tilfellum stærri. Pungrækjur fjölga sér aðeins tvisvar á ævinni og gera það með kynæxlun. Kvendýrið geymir svo eggin í þar til gerðum hólfum undir skel sinni (svipað og rækjur og mörg önnur krabbadýr) þangað til afkvæmin hafa klakist út og náð svokölluðu manca stigi. Þegar pungrækja er á manca stigi lífsferils síns, mætti líkja henni við ungling. Hún er næstum því orðin fullvaxta, en vantar aðeins aftasta parið af löppum til að teljast til fullvaxta dýrs.

Vistfræði

breyta

Þrátt fyrir að pungrækjur séu flestar sjávarbotndýr, þá finnast þær líka í söltum stöðuvötnum eins og Kaspíhafi, í íssöltum árósum og jafnvel yfir sjávarmáli í fjörum þar sem mikill munur er á flóði og fjöru. Þær búa sér til heimili í mjúkum botninum eða labba/synda eftir honum í fæðuleit.

Tegundir innan pungrækjuættbálksins má finna allt frá fjöruborði og niður á 1500 metra dýpi. Flestar tegundir lifa skemur en ár, en þær sem lifa á mestu dýpi hafa hægari efnaskipti og geta því lifað örlítið lengur.

Þær lifa á þörungar, dýrasvifi og mest öllu öðru sem fellur til botns og er nógu lítið fyrir þær til að éta. Sumar tegundir pungrækja hafa þróað með sér gadd, sem vex fram úr neðri á þeirra, sem þær nota til að að veiða og drepa minni krabbadýr. Sumar tegundir sem lifa í á grunnsævi taka upp á því að synda upp að yfirborðinu á næturnar í fæðuleit.

Rannsóknir

breyta

Ivan Ivanovich Lepechin var fyrstur til að lýsa pungrækjum árið 1780 en í þá daga voru vísindamenn ekki vissir að um nýtt fyrirbæri væri að ræða og héldu því fram að Lepechin hefði fundið rækjur á lirfustigi. Það var ekki fyrr en Henrik Nicolaj Krøyer, danskur dýrafræðingur, gerði ítarlegar rannsóknir á pungrækjum árið 1844, að menn áttuðu sig á því að hér væri um nýtt fyrirbæri að ræða.

Mestar upplýsingar sem safnast hafa um pungrækjur í kring um ísland voru í rannsóknarverkefninu „Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE)“ sem var upphaflega sett á laggirnar árið 1992. Meginmarkmið verkefnisins eru að kanna hvaða dýr lifa á hafsbotninum innan íslensku efnahagslögsögunnar, í hve miklu magni þau eru og hvernig útbreiðslu þeirra er háttað. Sýnatöku lauk árið 2004 eftir 19 leiðangra á þremur rannsóknaskipum. Alls voru tekin 1390 sýni á 579 stöðvum innan efnahafslögsögu landsins, frá um 20 til 3000 metra dýpi. Í þessum leiðöngrum var safnað rúmlega 14.000 eintökum af pungrækjum og fundust margar nýjar tegundir sem ekki höfðu sést áður hér við land sem og áður óþekktar tegundir. Mest sláandi þótti að Grænlands- Færeyjahryggurinn hamlar útbreiðslu ákveðinna tegunda pungrækja og margar tegundir finnast annaðhvort norðan eða sunnan hryggjarins.

Tilvísanir

breyta
  1. H. N. Krøyer (1846). „On Cumaceerne Familie“. Naturh. Tidsskr. 2 (2): 123–211, plates 1–2.