Próteógerill
Próteógerlar (Proteobacteria) er fylking baktería (gerla). Til próteógerla teljast margir sýklar, til dæmis Escherichia coli og Vibrio cholerae, en einnig fjölskrúðugir hópar umhverfisbaktería, svo sem ljóstillífandi purpuragerlar og hinir flóknu, sambýlismyndandi myxógerlar. Fylkingin er nefnd eftir gríska guðinum Próteusi sem brugðið gat sér í allra kvikinda líki.
Allir próteógerlar eru Gram-neikvæðir og hafa því ytri frumuhimnu sem að mestu er gerð úr lípófjölsykrueiningum. Svipuháður kvikleiki er algengur meðal próteógerla og eru svipurnar ýmist endastæðar eða kringstæðar. Sumir meðlimir fylkingarinnar eru einnig færir um skriðhreyfingar eftir föstum yfirborðum, en sá kvikleiki er svipuóháður. Fjölbreytileiki í efnaskiptum er verulegur innan fylkingarinnar, en flestar tegundir þrífast þó vel án þess að súrefni sé til staðar og teljast ýmist nauðháð eða valháð loftfælnar. Nokkurn fjölda ljóstillífandi baktería er að finna meðal próteógerla og eru þær gjarnan nefndar purpuragerlar vegna rauðleitra og fjólublárra litarefna í frumuhimnu þeirra. Fylkingunni er skipt í fimm flokka: alfa-, beta-, gamma-, delta- og epsílonpróteógerla.