GualterusPhilippus Gualterus – eða Walter frá Châtillon – var franskur rithöfundur og guðfræðingur á síðari hluta 12. aldar. Nafn hans er til í ótal myndum (latína: Galterus eða Gualterus de Castellione, franska: Gautier de Châtillon eða Gautier de Lille, enska: Walter of Châtillon, o.s.frv. Orðrétt á íslensku: Valtýr frá Kastala.)

Hann var fæddur í Lille (Ryssel) í Norður-Frakklandi, líklega um 1135. Hann hlaut fyrst menntun hjá Stefáni frá Beauvais (Étienne de Garlande) fyrrum kanslara Frakklands, síðan í Parísarháskóla. Var um tíma klerkur við dómkirkjuna í Tournai (Doornik), nú í Belgíu. Kenndi sig oftast við staðinn Châtillon, þar sem hann var lærifaðir, stundum við fæðingarstað sinn Lille.

Á stúdentsárum sínum samdi hann nokkur gamansöm kvæði (flakkaraljóð) á latínu sem síðar voru tekin upp í kvæðasafnið Carmina Burana. Á sinni tíð var hans þó frekar minnst fyrir langt söguljóð á latínu, Alexandreis – sive gesta Alexandri Magni, um Alexander mikla. Kviðan er samin undir sexliðahætti, eða hexametri, og er 5464 ljóðlínur, sem skiptast í 10 bækur. Höfundurinn tileinkaði kviðuna verndara sínum, Vilhjálmi, sem var erkibiskup í Reims 1175-1202, og er nafn erkibiskups í latneskri mynd falið í upphafsstöfum hinna 10 bóka kviðunnar: GUILLERMUS. Í formála segir höfundur að kviðan sé fimm ára verk sitt, og er talið að hún sé samin á árunum 1178-1182. Meðal fyrirmynda er Eneasarkviða eftir rómverska skáldið Virgil. Verk Gualterusar standa framarlega meðal latneskra bókmennta á miðöldum. Í Alexanderskviðu lætur hann skáldskapargildið ganga fyrir sögulegum staðreyndum og er tímatalið í talsverðum ruglingi, t.d. er Jesús Kristur þar krossfestur á dögum Alexanders mikla. Stafar þetta af því að Gualterus byggði verk sitt á ritum sem voru frekar skáldskapur en sagnfræði. Alexandreis var vinsæl lesning á dögum höfundarins og síðar, og hafði mikil áhrif á önnur skáld. Á okkar dögum er kviðan sjaldan lesin. Hún var þó þýdd á þýsku árið 1990 og á ensku 1992.

Alexandreis eða Alexanderskviða barst hingað til Íslands og var talsvert notuð til kennslu. Brandur Jónsson, síðar biskup á Hólum, þýddi hana á íslensku, líklega á árabilinu 1250-1260. Kallast hún Alexanders saga, enda er um lausamálsþýðingu að ræða, sem þykir afburða vel af hendi leyst.

Ýmis kvæði í stíl við Alexanderskviðu, eða um svipuð efni, hafa verið eignuð Gualterusi, en með ófullnægjandi rökum. Hann samdi rit gegn gyðingdómi og ritgerð um heilaga þrenningu, og hann var e.t.v. höfundur ritsins Moralium dogma philosophorum.

Gualterus dó skömmu eftir 1200, e.t.v. í drepsótt 1201.

Tenglar

breyta

Heimildir

breyta
  • Walter av Châtillon – á norsku og ensku Wikipediu.
  • Útgáfur Alexanders sögu.