Pax Britannica eða hinn breski friður er kallaður eftir Pax Romana og er friðartímabil í Evrópu og annars staðar í heiminum um einnar aldar skeið eða á tímabillinu 1815-1914. Á þessum tíma réði Breska heimsveldið flestum helstu siglingaleiðum og hélt úti öflugum sjóher. Frá lokum Napóleonstríðanna árið 1815 til fyrri heimstyrjaldarinnar árið 1914 var forræði Bretaveldis í heimsmálum þar sem allt miðaði að því að halda valdajafnvægi. Breska heimsveldið var á þessum tíma stærsta heimsveldi allra tíma. Á þessum friðartíma gat það bælt niður sjórán og þrælahald. En þó friður hafi ríkt á siglingaleiðum þá voru ýmis stríð háð á landi.

Þegar sú valdaskipun sem komið hafði verið á í Evrópu með Vínarfundinum árið 1815 fór að riðlast þá gróf það undan Pax Britannica. Ottómanveldið brotnaði niður og það leiddi til Krímstríðsins og síðar til nýrra þjóðríkja á Ítalíu og í Þýskalandi, japanska keisaradæmisins og Bandaríkja Norður-Ameríku.