Paul Frederic Simon (f. 13. október, 1941) er bandarískur tónlistarmaður sem er aðallega þekktur fyrir tónlist sem byggist á þjóðlagatónlist og heimstónlist. Hann náði upphaflega vinsældum ásamt félaga sínum Art Garfunkel í dúettinum Simon & Garfunkel sem þeir stofnuðu árið 1964. Simon samdi flest lög dúettsins, þar á meðal smellina „The Sound of Silence“, „Mrs. Robinson“ og „Bridge Over Troubled Water“. Þeir hættu samstarfi árið 1970 og Simon hóf þá sólóferil þar sem hann náði miklum vinsældum með hljómplötunum Paul Simon 1972 (lög á borð við „Me and Julio Down by the Schoolyard“), There Goes Rhymin' Simon 1973 (lög á borð við „Kodachrome“ og „Loves Me Like a Rock“) og Still Crazy After All These Years 1975 (lög á borð við „50 Ways to Leave Your Lover“). Allt urðu þetta metsöluplötur en One-Trick Pony sem kom út 1980 seldist mun síður. Eftir nokkurt hlé sneri hann aftur með tónlist sem var innblásin af suðurafrískri alþýðutónlist á Graceland 1986 sem varð vinsælasta sólóplata hans. Hann fylgdi henni eftir með The Rhythm of the Saints 1990 sem var tekin upp í Brasilíu með afrískum og brasilískum tónlistarmönnum. Eftir það hefur hann gefið út You're the One 2000, Surprise (með Brian Eno) 2006 og So Beautiful or So What 2011.

Paul Simon árið 2011

Paul Simon hefur einnig fengist við kvikmyndaleik. Hann lék í kvikmynd Woody Allen, Annie Hall, árið 1977 og aðalhlutverkið í One Trick Pony árið 1980 þar sem hann skrifaði líka handrit og samdi öll lög myndarinnar. Árið 1998 var frumsýndur söngleikur eftir Simon, The Capeman, byggður á ævi glæpamannsins Salvador Agrón, en viðtökur við honum voru dræmar.

Simon hefur hlotið Grammýverðlaun tólf sinnum. Hann var fyrsti handhafi Gershwin-verðlaunanna árið 2007.

Tenglar

breyta