Paradísarmissir

söguljóð eftir John Milton
(Endurbeint frá Paradise Lost)

Paradísarmissir er stakhent söguljóð eftir enska skáldið John Milton. Það kom fyrst út á prenti árið 1667 og skiptist í 10 bækur með yfir 10.000 ljóðlínum. Önnur útgáfa kom út 1674 þar sem ljóðið skiptist í 12 bækur (líkt og Eneasarkviða Virgils). Milton var þegar orðinn frægur fyrir rit sín til stuðnings Enska samveldinu en þegar Stúart-endurreisnin gekk í garð 1660 hafði hann misst sjónina vegna augnsjúkdóms. Hann slapp úr fangavist fyrir milligöngu áhrifamikilla vina. Paradísarmissir var samið á milli 1658 og 1664 þegar Milton var blindur, fátækur og á flótta. Fyrsta prentun bókarinnar seldist upp á 18 mánuðum. Það varð til þess að Milton var öldum saman álitinn eitt af höfuðskáldum enskra bókmennta.

Titilsíða frumútgáfunnar frá 1667.

Ljóðið segir frá syndafallinu: hvernig Satan freistar Adams og Evu og brottrekstri þeirra úr Eden. Helstu persónur kvæðisins eru Satan, Adam, Eva, Guð, Guðssonurinn og erkienglarnir Mikael og Rafael.

Milton fylgdi Paradísarmissi eftir með ljóðinu Paradísarheimt sem kom út 1671 ásamt leikritinu Samson Agonistes. Það ljóð fjallar aðallega um freistingu Krists sem sagt er frá í Lúkasarguðspjalli.

Jón Þorláksson á Bægisá þýddi kvæðið á íslensku. Þýðing hans kom fyrst út á prenti 1828.

Tenglar

breyta