Pacific Palace (Íslenska Friðarhöllin) er sextánda bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2021. Höfundar sögunnar eru Belginn Christian Durieux. Bókin hefur enn ekki komið út á íslensku.

Söguþráður

breyta

Svalur og Valur eru vikapiltar á hinu sögufræga lúxushóteli Friðarhöllinni á frönsku Rivíerunni. Blaðamennskuferill Vals er farinn í hundana og Svalur bjargaði honum um vinnuna með því að ljúga til um reynslu hans, en uppsker þó ekkert nema vanþakklæti frá Val sem sefur í vinnunni og er almennt slakur starfsmaður. Hótelstjórinn, hunn alvörugefni herra Paul, hefði helst viljað losa sig við ónytjunginn en til þess er enginn tími því búið er að rýma hótelið af öllum nema fimm starfsmönnum og umkringja það af öryggislögreglumönnum á meðan fjölmiðlar fylgjast spenntir með úr fjarska.

Hótelið hefur fengið óvenjulegan gest. Hinn illræmdi Iliex Korda, harðstjóri úr gömlu kommúnistaríki í Austur-Evrópu, hefur flúið heimaland sitt eftir stjórnarbyltingu og er kominn til Frakklands ásamt lífvörðum sínum, eiginkonu og gullfallegri en dulúðugri dóttur. Þeim hefur verið fundinn staður á hótelinu rétt á meðan frönsk yfirvöld ákveða hvað gera skuli við þennan gest.

Herra Paul sýnir Sval ljósmyndir úr merkri sögu hótelsins og útskýrir að staðarvalið sé engin tilviljun. Fyrir mörgum árum hafi Korda forseti komið á friðarsamningum í sínum heimshluta sem hafi verið undirritaðir á hótelinu, sem hafi í kjölfarið breytt nafni sínu í Friðarhöllina. Svalur verður þess áskynja að herra Paul geti haldið uppi samskiptum við lífverði Korda, en hann segist ekki kunna nema smáhrafl og reyni yfirleitt að læra nokkrar mikilvægar kveðjur í tungumálum tiginna gesta.

Svalur og Valur og heillast báðir af Elenu, dóttur einræðisherrans og eykur það enn á togstreituna milli þeirra. Þeir fylgjast með henni á nætursundi í hótelsundlauginni og í kjölfarið kyssast þau Svalur. Daginn eftir kallar herra Paul Sval til sín og varar hann við næturbrölti af þessu tagi. Svalur skilur ekkert í því hvernig hótelstjórinn geti vitað af kossinum, en hann sýnir honum þá leyniherbergi sem er fullt af upptökum úr leynilegum kvikmyndavélum úti um allt hús.

Daginn eftir versnar veðrið til muna og yfirvöld komast eð þeirri niðurstöðu að rýma þurfi hótelið í skyndingu vegna hættu á flóðum og skriðuföllum. Svalur og Elena verða að kveðjast í skyndingu. Valur, sem sér fyrir sér að endurvekja blaðamennskuferilinn með því að skrifa um dvöl einræðisherrans á hótelinu, er sendur í peningaskápinn til að sækja skartgripi. Þar uppgötvar hann skjöl sem sýna fram á að herra Paul er í raun samlandi Korda frá ríkinu Karajan. Hann hleypur til Svals með þessar upplýsingar í þá mund sem Korda og fjölskylda eru að yfirgefa hótelið. Þá dregur herra Paul snögglega upp skammbyssu og skýtur Korda myrðir hann með einu skoti.

Herra Paul er leiddur brott í járnum en nær þó að gefa Sval laumulega bendingu um að fara í leyniherbergið. Á leiðinni þangað verður Sval litið út um gluggann þar sem bifreið Korda-fjölskyldunnar ekur á braut og svo virðist sem leiðtoginn sé sprelllifandi í aftursætinu. Hann horfir því næst upptökurnar sem leiða samsærið í ljós: frönsk stjórnvöld treystu sér ekki til að veita Korda hæli vegna glæpaverka hans, en einræðisherrann bjó þó yfir of mörgum leyndarmálum sem vörðuðu Frakka. Því var ákveðið að sviðsetja dauða hans, herra Paul myndi taka það að sér, fá stuttan fangelsisdóm og verða hetja í heimalandinu - líf hans yrði þó upp frá þessu hjúpað lygi. Til að fléttan gengi upp yrðu þó að vera hlutlaus vitni og þar kæmi sér vel að hafa blaðamanninn/vikapiltinn Val til taks sem nytsaman sakleysingja. Svalur hefur ekki fyrr innbyrt þessar upplýsingar en sprenging heyrist. Yfirvöld hafa framkallað skriðu sem sópar burtu hótelinu og öllum sönnunargögnunum. Svalur og Valur sleppa við illan leik. Valur er ofsakátur vegna yfirvofandi blaðamennskufrægðar sinnar en Svalur hugsar sitt.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Sagan er dulúðug og myrk og nær alveg laus við þá gamansemi sem almennt einkennir Svals & Vals-ævintýri. Samskiptin milli félaganna eru líka mjög stirð og einkennast af skætingi og deilum frekar en vináttu.
  • Íkorninn Pési kemur ekki við sögu í bókinni, sem má heita einsdæmi. Raunar eru engar aðrar aukapersónur úr sagnaflokknum aðrar en Bitla sem bregður fyrir á sjónvarpsskjá. Öfugt við aðrar bækur í hliðasagnabókaflokknum eru heldur engar vísanir í fyrri ævintýri félaganna.
  • Meðal kunnra fyrri gesta í Friðarhöllinni er Michael Jackson en upplýst er að hann hafi kennt herra Paul Moonwalk-dansinn.