Pólýfónkórinn og kammersveit – Gloria og Magnificat
Pólýfónkórinn og kammersveit – Gloria og Magnificat er hljómplata með Pólýfónkórnum, einsöngvurum og kammersveit sem gefin var út af Pólýfónkórnum 1977. Stjórnandi var Ingólfur Guðbrandsson.
Pólýfónkórinn og kammersveit – Gloria og Magnificat | |
---|---|
P.001 | |
Flytjandi | Pólýfónkórinn, kammersveit, Ingólfur Guðbrandsson, Ann-Marie Connors, Elísabet Erlingsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Keith Lewis og Hjálmar Kjartansson |
Gefin út | 1977 |
Stefna | Kórsöngur |
Útgefandi | Pólýfónkórinn |
Um er að ræða fyrstu útgáfu með söng kórsins sem hann gaf út sjálfur. Upptakan var gerð af Ríkisútvarpinu á tónleikum kórsins og kammersveitar í Háskólabíói í apríl 1977. Kórfélagar voru 142 og hljómsveitina skipuðu 50 hljóðfæraleikarar. Einsöngvarar voru Ann-Marie Connors, Elísabet Erlingsdóttir, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Keith Lewis og Hjálmar Kjartansson. Hljóðvinnslu á frumupptöku Ríkisútvarpsins annaðist Tryggvi Tryggvason í London.
Lagalisti
breytaHlið 1: Gloria – Höfundur: Antonio Vivaldi (1678-1741) - ⓘ
Hlið 2: Magnificat - Höfundur: Johann Sebastian Bach (1685-1750) - ⓘ
Pólýfónkórinn og kammersveit í Háskólabíói 1977
breytaÍ umsögn um tónleika kórsins segir Egill Friðleifsson; „Gloria Vivaldis er í tólf þáttum fyrir kór einsöngvara og hljómsveit. Verkið, sem ekki hefur verið flutt hérlendis áður, er hlaðið mikilli spennu og krafti, eins og svo mörg önnur verk þessa þróttmikla Ítala. Í upphafskaflanum „Gloria in exelsis Deo“ komu þegar fram helstu og bestu kostir kórsins, fegurð og samræmi í tærum hljómunum, mýkt og sveigjanleiki við mótun hendinga og hnitmiðuð framsetning. Má segja að þessi lýsing eigi við um frammistöðu kórsins á tónleikunum í heild. Einsöngvararnir gerðu hlutverkum sfnum góð skil. Enska sópransöngkonan Ann-Marie Connors hefur fallega rödd og söng músíkalskt, en Elísabet Erlingsdóttir gaf henni í engu eftir, t.d. í dúettþættinum „Laudamus te”. Sigríður E. Magnúsdóttir söng af þokka, einkum var túlkun hennar á aríunni „Esurientes implevit bonis” í verki Bachs eftirminnileg. Magnificat Bachs er einnig í tólf þáttum. Það hefur áður hljómað í ágætum flutningi Fílharmóníukórsins fyrir rúmum áratug. Var mikill fengur að því að fá á ný notið þessa stórbrotna verks í svo vönduðum flutningi sem hér. Söngur kórsins í sjöunda kaflanum „Fecit potentiam in brachio suo” var stórkostlegur. Rödd Hjálmars Kjartanssonar barst vel í aríunni „Quia fecit mihi” og nýsjálenski söngvarinn Keíth Lewis býr yfir flestum þeim kostum er prýða má góðan tenór. Meðferð hans á áttunda þætti „Deposuit potentes de sede” var mjög góð.”[1]
Um höfundana
breytaIngólfur Guðbrandsson skrifar um Vivaldi, höfund Gloriu aftan á plötuumslagið; „Tónskáldið og fiðlusnillingurinn Antonio Vivaldi var sonur fiðluleikara við Markúsarkirkjuna í Feneyjum Hann var settur til mennta og tók prestsvígslu, og meðal almennings var hann kallaður „il prete rosso", „rauði presturinn". Hann lagði þó brátt niður prestskapinn og sneri sér eingöngu að tónlistinni. Frá 1704 starfaði hann við Conservatorio della Pietá í Feneyjum, frægum tónlistarskóla fyrir ungar stúlkur, þar sem hann varð fyrst konsertmeistari og síðan stjórnandi skólans. Hann var afkastamikið tónskáld og samdi fjölda tónverka fyrir einleikshljóðfæri og hljómsveitir, frægastir eru fiðlukonsertar hans og conserti grossi, en á árunum 1713-39 samdi hann og stjórnaði 39 óperum víðs vegar á Ítalíu. Vivaldi var einn mesti fiðlusnillingur síns tíma og eftirsóttur einleikari, enda sífellt á ferðalögum. Tónsmíðar hans höfðu mikil áhrif á J.S. Bach, sem umsamdi 20 þeirra fyrir önnur hljóðfæri. Vivaldi samdi nokkur verk fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit, og er Gloria í D-dúr, sem hér er flutt, eitt hið kunnasta þótt ekki hafi það heyrzt hér áður, fremur en önnur kórverk hans. Það er talið vera samið um 1715 og er í 12 þáttum fyrir ferradda kór, einsöngvara, strokhljómsveit, óbó og trompet. Yfir tónsmíð þessari ríkir einstök heiðríkja. Frá upphafi til enda hljómar hér fagnandi lofgjörð um mikilleik Guðs. Sá innri þróttur og þrotlaus spenna, sem einkennir mörg hljómsveitarverk Vivaldis, birtist hér upphafin i margslungnu formi og litadýrð og miklar nafn skaparans í krafti tilbeiðslu og trúarvissu.“
Ingólfur skrifar einnig um Bach, höfund Magnificat: „Jóhann Sebastian Bach, kantorinn, orgelsnillingurinn og tónskáldið frá Leipzig, sem nefndur hefur verið „fimmti guðspjallamaðurinn", þarf naumast að kynna fyrir áheyrendum Pólýfónkórsins, þar eð kórinn hefur áður flutt öll stærstu verk hans, Jólaoratoríuna. Jóhannesarpassíuna, Mattheusarpassíuna og H-moll messuna og sum þessara verka margsinnis á ferli kórsins. Pólýfónkórinn flytur nú Magnificat Bach í fyrsta sinn. H-moll messan, Magnificat og 5 útgáfur af Sanctus eru einu verk Bachs við latneskan texta. Talið er, að hann hafi samið Magnificat til flutnings í Leipzig á jólum 1723. Sú gerð verksins var í Es-dúr og í tilefni jólanna var 4 aukaþáttum skotið inn á milli þátta verksins. Bach umsamdi verkið í D-dúr árið 1732 og gerði á því ýmsar breytingar, og í þeirri gerð er það nú flutt. Magnificat var þáttur í guðsþjónustunni á stórhátíðum kirkjuársins, á jólum, páskum og hvítasunnu. Þar eð messan var löng, var tíminn fyrir flutning Magnificats takmarkaður. Er það talið orsök þess að Bach sneið verkinu svo þröngan stakk, það er aðeins um 600 taktar að lengd, og ekkert er endurtekið, hvergi da capo. Þrátt fyrir það býr það yfir ódauðlegri fegurð og snilld og er skyldast H-moll messunni að búnaði og gerð, samið fyrir 5 radda kór og sömu hljóðfæraskipan og H-moll messan. Eins og í henni og Mattheusarpassíunni fer hér saman formsnilld og andagift, sem skipa þessum verkum á svið upphafinnar tjáningar, alþjóðleg og óháð tímanum. Hinn fagnandi inngangur verksins, fullur af trúartrausti, er rifjaður upp í lokin: „Sicut erat in principio", svo sem var i öndverðu, er enn og verður ávallt um aldir alda. Amen.“
Tilvísanir
breyta- ↑ Morgunblaðið, 13. apríl 1977, bls. 12.