Pílatus er fjall í Alpafjöllum, aðeins steinsnar fyrir sunnan borgina Luzern í Sviss.

Pílatus liggur við borgina Luzern

Lega og lýsing

breyta

Pílatus liggur við samskeytin á kantónunum Luzern, Obwalden og Nidwalden við vesturenda stöðuvatnsins Vierwaldstättersee. Fjallið er í norðurjaðri Alpafjalla og er 2.128 m hátt. Á tindinum er hótel, veitingahús og veðurathugunarstöð. Pílatus er þekkt fyrir hin snöggu veðrabrigði en við tindinn getur fyrirvaralítið myndast stormur og óveður.

Orðsifjar

breyta

Áður fyrr hét fjallið Mons fractus, sem merkir brotna fjallið. Tindarnir eru nokkrir og líta út eins og fjallið hafi brotnað. En sökum oddótta tindanna breyttist heitið í Mons pileatus, sem merkir oddótta fjallið. 1480 er það skráð sem Pylatus, 1555 sem Mons Pilati og loks Pilatusberg eða bara Pilatus. Heitið hefur ekkert með Pílatus að gera sem var landstjóri Rómverja í Palestínu á tímum Jesú. Hins vegar mynduðust alls konar gróusögur um landstjórann eftir að heiti fjallsins breyttist í Pílatus. Til dæmis sögðu sumir að hann hvíli í eða við fjallið.

Ferðamennska

breyta
 
Gestamiðstöðin á tindi Pílatusar

Pílatus er auðklifið fjall fyrir vana göngumenn. Auk þess fer kapallyfta upp fjallið vestanmegin og tannhjólalest austanmegin, sem flytja þúsundir ferðamanna upp á tindinn. Tannhjólalestin er sú brattasta í heimi en mesti brattinn er 48% halli. Á tindinum eru hótel og nokkrir veitingastaðir sem taka á móti ferðamönnum. Ægifagurt útsýni til allra átta er á tindinum. Alpafjöllin teygja sig frá vestri til austurs, Vierwaldstättersee liggur fyrir fótum fjallsins og borgin Luzern er eins og lítil spilaborg. Nokkuð er um jaðaríþróttir í fjallinu, svo sem svifdrekaflug, fjallaklifur og fjallahjólreiðar (mountainbiking).

Þjóðsögur

breyta

Alls konar þjóðsögur hafa spunnist um fjallið Pílatus. Það var tiltrú manna áður fyrr að drekar bjuggu þar, sökum tíðra og snöggra veðrabrigða. Einnig að þar byggju nornir og galdramenn. Þekktust er þjóðsagan um Pontíus Pílatus en sumir trúðu því að hann hafi hlotið vota gröf í einni tjörninni í fjallinu. Aðrar sögur fjalla um drekasteininn, mánamjólkina og leyndarmál Dóminíkusarhellisins.

Annað markvert

breyta

Ekki er vitað hver eða hvenær Pílatus var fyrst klifinn. En meðal þeirra sem þar hafa komið upp má nefna Viktoríu drottningu og Lenín.

Fjallageitur bjuggu í hlíðum Pílatusar en voru útdauðar þar þegar á 17. öld. Árið 1961 voru fjallageitur á ný settar út í þeirri viðleitni að búa til nýjan stofn á fjallinu. Verkefnið virðist hafa heppnast, því 2004 voru 90 dýr talin.

Heimildir

breyta