Austurfrísnesku eyjarnar

(Endurbeint frá Ostfriesische Inseln)

Austurfrísnesku eyjarnar (þýska: Ostfriesische Inseln) er þýskur eyjaklasi í Vaðhafinu undan ströndum Neðra-Saxlands, nánar tiltekið við héraðið Austur-Frísland (Ostfriesen). Stærstu eyjarnar eru 7 og eru þær allar í byggð. Austasta eyjan er við fjarðarmynni Jade, en sú vestasta við árósa Ems. Auk Austurfrísnesku eyjanna eru einnig til Vesturfrísnesku eyjarnar (sem tilheyra Hollandi) og Norðurfrísnesku eyjarnar (sem tilheyra Þýskalandi og Danmörku).

Jarðfræði

breyta
 
Þýskt kort af Austurfrísnesku eyjunum

Eyjarnar mynduðust ekki við sjávarbrot hafsins, eins og fyrr var haldið, heldur við setmyndun í Vaðhafinu. Eyjarnar eru því í beinni röð í austur-vestur stefnu. Nokkur smærri sandrif eru að myndast og má gera ráð fyrir því að eyjunum fjölgi með tímanum eða að sandrifin sameinast stærri eyjunum. Norðurendi eyjanna (sem snýr að úthafinu) er gerður úr sandi og sandhólum. Miðhlutinn er vaxinn gróðri og kjarri. Einstaka skógarreiti er að finna þar. Suðurhlutinn (sem snýr að fastalandinu) er aðallega úr söltum jarðvegi og leir. Á flóði eru eyjarnar umflotnar sjó, en á fjöru koma aðalleirurnar í ljós svo kílómetrum skiptir. Á vissum stöðum er þá hægt að ganga til fastalandsins. Milli eyjanna eru straumþungar vatnsrásir þar sem sjórinn þrýstist til norðurs þegar fjarar út eða til suðurs þegar flæðir að. Straumarnir liggja aðallega frá vestri til austurs, þannig að með tímanum eyðist af vesturodda eyjanna, en þær vaxa að sama skapi hægt til austurs. Þessar hreyfingar taka langan tíma. Þannig hafa nokkrar eyjar horfið af kortinu, aðrar sameinast og enn eru ný rif að myndast.

Eyjarnar

breyta

Stærstu eyjarnar eru 7 að tölu, en auk þeirra eru nokkrar minni eyjar. Aðaleyjarnar frá austri til vesturs (íbúafjöldinn miðast við talningu 31. desember 2008):

Eyja Stærð í km² Íbúafjöldi Fjarlægð frá fastalandi Höfuðstaður
Wangerooge 4,97 933 6,5 km Wangerooge
Spiekeroog 18,25 780 6,5 Spiekeroog
Langeoog 19,67 1933 5 km Langeoog
Baltrum 6,5 496 4,5 Baltrum
Norderney 26,29 5.866 3 km Stadt Norderney
Juist 16,43 1.721 8 Juist
Borkum 30,74 5.266 10,5 km Stadt Borkum
Alls 134,35 16.955

Sjómenn hafa búið til litla setningu á þýsku til að muna betur röðina á þessum eyjum frá austri til vesturs. Upphafsstafir orðanna eru jafnframt upphafstafir eyjanna: Welcher Seemann liegt bei Nelly im Bett (Hvaða sjómaður liggur hjá Nelly í rúminu). Allar tilheyra eyjarnar héraðinu Ostfriesland, nema Wangerooge, sem tilheyrir héraðinu Aldinborg. Eyjarnar eru allar gríðarlega vinsælar meðal ferðamanna, ekki bara sökum baðstrandanna, heldur einnig vegna einangrunarinnar og fuglalífsins. Vaðhafið er viðkomustaður farfugla. Á fartímanum og á veturna safnast milljónir vaðfugla við eyjarnar.

Heimildir

breyta