Orrustan við Weissenstein
Orrustan við Weissenstein var orrusta milli Svíþjóðar og Pólsk-litháíska samveldisins við kastalann í Paide (Weissenstein á þýsku) í Líflandi (nú hluti af Eistlandi) 25. september 1604. Orrustan var hluti af Stríði Svíþjóðar og Póllands 1600-1611. Sænski herinn taldi 6000 menn og var undir stjórn Arvid Stålarm en pólski herinn taldi 2300 menn undir stjórn Jan Karol Chodkiewicz. Sænski herinn hóf umsátur um kastalann tíu dögum áður en Chodkiewicz kom. Sænski herinn var að hluta skipaður þýskum málaliðum undir stjórn Spánverjans Alonzo Cacho de Canut. Chodkiewicz réðist fyrst á þá með húsara sína og hrakti á flótta. De Canut féll í árásinni. Sænsku og finnsku herdeildirnar hröktust síðan undan pólska liðinu út í mýri. Svíar misstu 3000 menn, 6 fallbyssur og 26 fána en pólska liðið aðeins 50 menn. Eftir ósigurinn var Stålarm sviptur herforingjatign og dæmdur til dauða árið eftir. Hann eyddi því sem eftir var ævi sinnar í fangelsi konungs í Gripsholm.