Krossland
Borgarfjörður eystra er fjörður sem gengur inn í nyrsta hluta Austfjarðafjallgarðsins. Fjörðurinn dregur nafn sitt af Álfaborg sem stendur mitt á milli fjalla, örskammt innan við þorpið Bakkagerði. Sveitarfélagið heitir Borgarfjarðarhreppur. Borgarfirðir eru þrír á Íslandi. Til aðgreiningar hefur sá fyrir austan verið kallaður Borgarfjörður eystra, en einnig er eystri notað. Þegar Saga Borgarfjarðar var gefin út árið 1995 kvað Ármann Halldórsson fræðimaður frá Snotrunesi upp úr með nafnið með svofelldum rökstuðningi. "Bók þessi heitir Saga Borgafjarðar eystra, en ekki eystri sem nú er tíðast sagt og ritað. Ástæður þess eru tvær. Önnur að þetta er gamalt mál Borgfirðinga sjálfra, t.d. utan á sendibréfum, og hin síðari að þetta er rökréttara mál og hentara að nota hér óbeygjanlegt staðaratviksorð en lýsingarorðið eystri, sem nánast er rangt, þar sem firðir hér á landi a.m.k. þrír með þessu nafni og sá eystra ekki hinn eystri, heldur sá austasti. Í Íslenskri orðabók er orðið eystra skýrt "fyrir austan" og "austar". Titillinn þýðir því: Borgarfjörður fyrir austan."