Netscape Navigator
Netscape Navigator er vafri frá Netscape Communications Corporation sem var vinsæll á 10. áratug 20. aldar. Hann byggði á vafranum Mosaic sem Marc Andreessen hafði þróað meðan hann var í háskólanámi. Mosaic var fyrsti margmiðlunarvafrinn og átti mikinn þátt í því að gera Veraldarvefinn vinsælan. Netscape tók við því hlutverki eftir 1994, en með vaxandi notkun Internet Explorer sem var uppsettur sem sjálfgefinn vafri á Microsoft Windows-stýrikerfinu frá 1995, minnkaði markaðshlutdeild Netscape jafnt og þétt. Árið 1999 keypti AOL Netscape Communications en skömmu áður hafði fyrirtækið gefið út frumkóða vafrans og samtökin Mozilla Organization tekið við þróun hans. Mozilla gaf út nýjar útgáfur af Netscape-vafranum 2000 og 2002 en ákvað árið 2003 að einbeita sér að þróun Mozilla Firefox-vafrans (sem var upphaflega grein af Netscape-kóðanum).