Nútímafræði er þverfaglegt nám á sviði hugvísinda kennt við Háskólann á Akureyri sem er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á námið[1]. Í náminu er hugað að rótum nútímans og þeim umbyltingum sem honum hafa fylgt, en nútíminn er nafn á þeim lífsháttum, hugmyndaheimi og samfélagsgerð sem hóf að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum á ofanverðri 18. öld. Í nútímafræði er lögð áhersla á að efla þroska, víðsýni og miðlun efnis í ræðu og riti. Námið er blanda af heimspeki, siðfræði, sagnfræði, samfélagsgreinum og íslensku. Námið gefur kost á miklu vali og er mjög einstaklingsmiðað. Dregin er upp mynd af samfélaginu og þeim þáttum sem hafa áhrif á það og ýmsum álitamálum velt upp[1]. Námið er 180 ECTS eininga nám til B.A.-gráðu.

Nútímafræði í erlendum skólum

breyta

Nútímafræði eða modern studies er þekktara í skólum erlendis, þá sérstaklega á Bretlandseyjum og í Bandaríkjunum. Í Skotlandi er nútímafræði einnig kennd á framhaldsskólastigi og þar er náminu lýst sem félags-, stjórnmála- og hagfræðitengdu námi sem að snýr bæði að málum nærsamfélagsins og alþjóðamálum. Nútímafræði er þó einnig kennd á háskólastigi í Skotlandi en Háskólinn í Aberdeen er með miðstöð snemmnútímafræða, Early Modern Studies, sem á að sameina virtar fræðigreinar í snemmnútímafræðum í öllum aðalatriðum og fóstra samstarf rannsókna á sviðum sögu, heimspeki, trúarbrögðum, bókmenntum og fleiri listgreinum[2].

Uppbygging námsins

breyta

Nútímafræði hefur verið kennd við Háskólann á Akureyri frá árinu 2000 en þó ekki allan tímann í sömu mynd[2]. Haustið 2003 var nútímafræðin sett undir nýstofnaða félagsvísinda- og lagadeild við Háskólann á Akureyri og þá varð til sá möguleiki að taka nútímafræði til B.A.-prófs. Skólaárið 2004-2005 var komin nokkuð föst mynd á námið, þá voru einungis skyldunámskeið fyrsta árið en svo aftur talsvert val tvö næstu ár af þeim áherslusviðum sem viðkomandi hefur kosið sér[2]. Í dag ljúka nemendur 120 ECTS-einingum af kjarnanámskeiðum auk þess að velja á milli fjögurra áherslusviða[1]:

  • Sagnfræði
  • Heimspeki
  • Íslensku
  • Nútímafræði

Í námsmati er almennt lögð áhersla á verkefni, ritgerðarsmíðar og minni próf frekar en hefðbundið lokapróf eftir kennslumisserið. Sum námskeið eru kennd á ensku sem gerir kröfur til nemenda og eykur hæfni þeirra. Einnig er lögð áhersla á hópavinnu.

Sveigjanlegt nám

breyta

Allt grunnnám við Háskólann á Akureyri er sveigjanlegt nám sem þýðir að ekki skiptir hvort þú ert staðarnemi eða fjarnemi. Allir fylgja sömu námskrá og hafa aðgang að sama námsefninu[1].

Allir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur nemandi horft á fyrirlestra þegar þeim hentar og eins oft að þeir vilja. Hægt er að taka þátt í umræðutímum og hópavinnu í gegnum samskiptaforrit sem skólinn skaffar[1].

Staðarlotur

breyta

Allir fjarnemar koma nokkrum sinnum á námstímanum í stuttar kennslulotur til Akureyrar þar sem megináhersla er lögð á verkefnavinnu og umræður, almennt einu sinni á hverri önn. Þar gefst nemendum tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk háskólans og tengjast enn betur háskólasamfélaginu[1].

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Akureyri, Háskólinn á. „Nútímafræði“. Háskólinn á Akureyri. Sótt 28. desember 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 Anna Lilja Björnsdóttir Elísabet Katrín Friðriksdóttir (Júní 2010). „Nútímafræði við Háskólann á Akureyri : frá upphafi til dagsins í dag“.