Myrkárdalur er dalur sem skerst nær beint til vesturs út úr Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu. Þar er nokkurt undirlendi, töluvert mýrlent, en há fjöll umlykja dalinn. Jökull er í botni hans og kallast Myrkárjökull. Úr honum rennur áin Myrká um dalinn í Hörgá. Suðurhlið dalsins kallast Flögudalur og þar upp af er Kerlingarfjall og tindurinn Flögukerling.

Í dalnum sjálfum voru tveir bæir, Myrkárdalur og Stóragerði, sem nú eru komnir í eyði. Við mynni dalsins, í Hörgárdal, eru bæirnir Myrkárbakki og Myrká, sem var áður kirkjustaður og prestssetur. Þar gerðist þjóðsagan um djáknann á Myrká. Fyrir neðan Myrkárdal rennur Myrká í mjög djúpu gili og er sagt að áður hafi verið svo mikill skógur í gilbörmunum báðum megin að dimmt hafi verið ofan í gilinu og dragi áin nafn af því.