Hægriflokkurinn (Svíþjóð)

(Endurbeint frá Moderaterna)

Sænski Hægriflokkurinn (s. Moderata samlingspartiet, yfirleitt stytt í Moderaterna; nafnið gæti útlagst á íslensku sem Hófsami einingarflokkurinn[1]) var stofnaður 17. október 1904. Eins og nafnið ber með sér er flokkurinn til hægri í sænskum stjórnmálum og því er oft vísað til hans í daglegu tali sem Hægriflokksins (s. Högerpartiet). Flokkurinn var stofnaður sem Almenni þingmannaflokkurinn (s. Allmänna valmansförbundet) og var svar við risi Sósíaldemókrataflokksins (stofnaður árið 1889) og Frjálslynda flokksins (stofnaður 1902). Þó sænskir íhaldsmenn hafi verið atkvæðamiklir í stjórnmálum á nítjándu öld höfðu þeir ekki haft með sér formlegan félagsskap fram að þessu. Gullöld flokksins var á millistríðsárunum en Arvid Lindman var þá áhrifamesti leiðtogi flokksins. Eftir ris Sósíaldemókrataflokksins á fjórða áratugnum skrapp fylgi Miðflokksins saman og á eftirstríðsárunum dróst fylgi hans enn frekar saman. Á síðustu áratugum hefur fylgi flokksins vaxið að nýju og vann hann afgerandi sigur í kosningunum 2010. Núverandi formaður Hægriflokksins er Ulf Kristersson.

Sænski Hægriflokkurinn
Moderata samlingspartiet
Formaður Ulf Kristersson
Aðalritari Gunnar Strömmer
Þingflokksformaður Tobias Billström
Stofnár 1904; fyrir 121 ári (1904)
Höfuðstöðvar Stora Nygatan 30, Gamla stan, Stokkhólmi
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Frjálslynd íhaldsstefna, efnahagslegt frjálslyndi
Einkennislitur Blár  
Sæti á ríkisþinginu
Vefsíða moderaterna.se

Flokkurinn hefur tvisvar skipt um nafn. Frá 1938 til 1952 hét flokkurinn Högerns riksorganisation og frá 1952 til 1969 hét hann einfaldlega Högerpartiet. Þó flokkurinn hafi tekið að sér það hlutverk að leiða stjórnarandstöðuna gegn sósíaldemókrötum dróst fylgi flokksins saman frá 1934, og náði það lágmarki í kosningunum 1968 þegar flokkurinn varð minnsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Flokkurinn tók þá nýja stefnu og nafn sem endurspeglaði stefnubreytinguna, Moderata samlingspartiet. Í kosningunum 1976 misstu Sósíaldemókratar þingmeirihluta sinn sem þeir höfðu haldið með stuttum hléum frá 1932 og tók Hægriflokkurinn þá þátt í myndun ríkisstjórnar með Miðflokknum undir forsæti Thorbjörn Fälldin. Árið 1981 sleit Hægriflokkurinn stjórnarsamstarfinu og í kjölfar kosninganna 1982 mynduðu sósíaldemókratar ríkisstjórn að nýju. Í kjölfar kosninganna 1991 mynduðu hægriflokkarnir að nýju ríkisstjórn, nú undir forsæti Carl Bildt, formanns Hægriflokksins.

Á landsfundi flokksins 2003 breytti flokkurinn enn um áherslur og Fredrik Reinfeldt tók við stjórn flokksins. Í kosningunum 2006 vann hann stórsigur, 26,23% atkvæða, stærsta kosningasigur sinn síðan 1928. Reinfeld varð í kjölfarið forsætisráðherra í samsteypustjórn hægriflokkanna. Í kosningunum 2010 bætti flokkurinn við sig, og fékk nú 30,06% atkvæða.

Tilvísanir

breyta
  1. Kristján Jónsson (3. apríl 2007). „Finnst mikið til um þróun efnahagsmála á Íslandi“. Morgunblaðið.