Mjólkuróþol (eða mjólkursykuróþol) er kvilli sem hrjáir sumt fólk sökum þess að líkami þeirra framleiðir of lítið eða ekkert af laktasa, sem er prótín sem brýtur niður mjólkursykur.

Mjólkursykurinn fer því alveg, eða að hluta til, ómeltur í gegnum meltingarveginn og niður í ristilinn þar sem ristilgerlar nýta hann með tilheyrandi gerjun og loftmyndun. Þetta veldur uppþembu, magaverkjum, vindverkjum og jafnvel magakrömpum og niðurgangi. Einkennin geta verið svipuð einkennum mjólkurofnæmis, en verða aldrei eins alvarleg.

Einstaklingar með mjólkuróþol fá það frekar seinna á ævinni og oftast gerist það þannig að smátt og smátt fer framleiðsla laktasa minnkandi. Einnig er mjög misjafnt eftir kynþáttum hversu algengt mjólkuróþol er, sem eflaust er tengt erfðum. Í vestrænum löndum er tíðnin um 5-10%, en víða í Asíu, Afríku, Suður-Ameríku og meðal amerískra indjána getur tíðnin orðið hátt í 100% hjá fullorðnum einstaklingum.

Þegar um óþol er að ræða versna einkennin því meira sem neytt er af fæðunni og sumir þola hana ágætlega í litlu magni. Einstaklingar með mjólkursykuróþol þola stundum betur sýrðar mjólkurvörur, þar sem bakteríur sem bætt er út í slíkar vörur brjóta niður mjólkursykurinn að hluta.

Rannsóknir sýna að hæfileikinn til að framleiða laktasa kom fram fyrir nokkur þúsund árum, fyrstu íbúar Evrópu voru með mjólkuróþol en síðari kynslóðir fóru að framleiða laktasa.

Úrráð

breyta

Hægt er að fá fæðubótarefni í apótekum og heilsuvörubúðum sem hjálpa líkamanum að brjóta niður mjólkursykur og geta því einstaklingar með mjólkuróþol nýtt sér þetta til aðstoðar.

Á Íslandi eru það Lactasin og Lactase sem fást án lyfseðils í apótekum. Þau á að taka samhliða neyslu mjólkurvarnings. Heilsuvörubúðir selja álíka vörur.

Heimildir

breyta