Mikael Rúmeníukonungur

(Endurbeint frá Mikael 1. Rúmeníukonungur)

Mikael 1. (25. október 1921 – 5. desember 2017) var síðasti konungur Rúmeníu. Hann ríkti frá 20. júlí 1927 til 8. júní 1930 og aftur frá 6. september 1940 þar til hann sagði af sér þann 30. desember 1947.

Skjaldarmerki Hohenzollern-ætt Konungur Rúmeníu
Hohenzollern-ætt
Mikael Rúmeníukonungur
Mikael 1.
Ríkisár 20. júlí 1927 – 8. júní 1930; 6. september 1940 – 30. desember 1947
SkírnarnafnMihai
Fæddur25. október 1921
 Peleș-kastala, Sinaia, Rúmeníu
Dáinn5. desember 2017 (96 ára)
 Aubonne, Sviss
GröfCurtea de Argeș, Rúmeníu
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Karol 2. Rúmeníukonungur
Móðir Helena af Grikklandi og Danmörku
DrottningAnna Rúmeníudrottning
BörnMargareta, Elena, Irina, Sophie, Marie

Stuttu áður en Mikael fæddist hafði faðir hans, Karol prins, átt í umdeildu ástarsambandi við konu að nafni Mögdu Lupescu.[1] Árið 1925 var Karol fenginn til að afsala sér erfðarétti sínum að krúnunni og flutti í útlegð til Parísar ásamt Lupescu. Árið 1927 varð Mikael konungur eftir dauða afa síns, Ferdinands 1. Rúmeníukonungs. Þar sem Mikael hafði ekki náð lögaldri var ráð ríkisstjóra skipað undir stjórn frænda hans, Nikulásar prins, patríarkans Mirons Cristea og Gheorghes Buzdugan forseta hæstaréttarins. Ríkisstjórunum tókst illa að stýra ríkinu og árið 1930 sneri Karol aftur, tók við völdum af syni sínum og ríkti sem Karol 2. af Rúmeníu. Mikael varð því ríkisarfi á ný og hlaut titilinn Voevod (herstjóri) Alba-Iulia.

Karol 2. var steypt af stóli árið 1940 og Mikael varð konungur á ný. Undir stjórn einræðisherrans Ions Antonescu gekk Rúmenía í bandalag við Þýskaland nasismans í seinni heimsstyrjöldinni. Árið 1944 tók Mikael þátt í valdaráni gegn Antonescu, útnefndi Constantin Sănătescu forsætisráðherra og gekk í lið með bandamönnum.[2] Í mars árið 1945 var Mikael neyddur til að skipa ríkisstjórn hlynnta Sovétríkjunum undir stjórn Petru Groza. Frá ágúst 1945 til janúar 1946 fór Mikael í „konunglegt verkfall“ og reyndi að mótmæla kommúnistastjórn Groza með því að neita að skrifa undir tilskipanir hennar. Í nóvember var Mikael viðstaddur brúðkaup frændfólks síns, Elísabetar prinsessu af Bretlandi (sem síðar varð drottning) og Filippusar prins af Grikklandi, í London. Stuttu síðar, þann 30. desember 1947, kallaði Groza Mikael á fund sinn og neyddi hann til að segja af sér. Mikael var rekinn í útlegð og sviptur bæði eignum sínum og ríkisborgararétti. Hann kvæntist Önnu prinsessu af Bourbon-Parma árið 1948 og eignaðist með henni fimm dætur. Fjölskyldan bjó um skeið í Bretlandi og sá fyrir sér með því að rækta og selja grænmeti[1][3] en settist síðan að í Sviss.

Kommúnistastjórn Nicolae Ceaușescu var steypt af stóli árið 1989 og næsta ár reyndi Mikael að snúa aftur til Rúmeníu. Hann var hins vegar handtekinn og sendur úr landi þegar hann steig á rúmenska grundu. Árið 1992 var Mikael leyft að heimsækja Rúmeníu á páskunum. Mikill mannfjöldi tók við Mikael og talið er að um milljón manns hafi komið til Búkarest til að hlusta á ræðu sem hann hélt úr hótelglugga sínum. Ríkisstjórn Ions Iliescu stóð uggur af vinsældum Mikaels og neitaði að leyfa honum að heimsækja landið á ný. Eftir að Iliescu bað ósigur í forsetakosningum árið 1997 gegn Emil Constantinescu var Mikael veittur rúmenskur ríkisborgararéttur á ný og honum leyft að heimsækja landið að vild.[4] Einnig var fjölskyldu hans skilað nokkrum landeignum eins og kastölum þeirra við Peleş og Săvârşin.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „Kóngurinn, sem selur blóm“. Sunnudagsblaðið. 6. mars 1960. Sótt 23. desember 2018.
  2. „Þegar Antonescu var steypt af stóli“. Morgunblaðið. 17. janúar 1945. Sótt 13. apríl 2018.
  3. „Konungur gerizt garðyrkjubóndi“. Sunnudagsblaðið. 22. apríl 1956. Sótt 23. desember 2018.
  4. „Notfæra sér virðingu Mikaels konungs til að fá NATO-aðild“. Morgunblaðið. 1. mars 1997. Sótt 14. apríl 2018.