Merki Lýðveldisins Kína
Hvít sól á bláum himni er merki Lýðveldisins Kína, flokksfáni Kuomintang, hluti af fána Lýðveldisins Kína og sjófáni sama lands. Geislarnir tólf umhverfis sólina tákna tólf mánuði ársins og tólf stundir í hefðbundnu kínversku tímatali.
Upphaflega var merkið hannað af Lu Haodong fyrir Félag um endurreisn Kína sem Sun Yat-sen stofnaði 1894. Í Wuchang-uppreisninni 1911 notuðust byltingarflokkarnir við nokkur ólík merki. Þegar stjórn Lýðveldisins Kína var komið á 1912 tók hún fyrst fimmlita fánann upp sem þjóðfána, en Sun Yat-sen þótti hann gefa til kynna stéttskiptingu. Þegar hann setti upp klofningsstjórn í Guangzhou 1917 tók hún hvítsólarfánann upp sem reit á rauðum grunni. Þessi fáni varð opinber þjóðfáni árið 1928.