Melarokk voru tónleikar sem voru haldnir á Melavellinum í Vesturbæ Reykjavíkur á laugardegi 28. ágúst 1982. Tónleikarnir eru stundum sagðir marka endalok blómaskeiðs pönksins á Íslandi. Heimildarmynd Friðriks Þórs, Rokk í Reykjavík, hafði komið út vorið áður, og tónleikarnir Risarokk voru haldnir í Laugardalshöll 10. september af aðstandendum myndarinnar, aðeins tíu dögum eftir Melarokk, en þeir fengu slæma dóma.

Tónleikarnir hófust fyrst einum og hálfum tíma eftir áætlaðan tíma vegna þess að aðstandendur námskeiðs Paul Zukovsky í Háskólabíói óttuðust að Melarokk myndi trufla lokahátíð þeirra, því var beðið þar til þeim tónleikum lauk. Um 2000 manns sóttu tónleikana þrátt fyrir kulda og rok. Aðalnúmer kvöldsins, hljómsveitin Þeyr, mætti ekki þegar hún átti að leika síðust í röðinni og nokkrir meðlimir annarra hljómsveita hlupu þá í skarðið til að loka dagskránni.

Hljómsveitirnar sem komu fram á tónleikunum voru Reflex, Tappi tíkarrass, KOS, Grýlurnar, Hin konunglega flugeldarokksveit, Stockfield Big Nose Band, Q4U, Vonbrigði, Fræbbblarnir, Þrumuvagninn, Pungó og Daisy, Lola, Bandóðir, BARA-flokkurinn og Purrkur Pillnikk.

Tenglar breyta