Medar voru írönskumælandi þjóð sem hóf að setjast að í fjöllunum í norðvesturhluta þess svæðis sem í dag er Íran undir lok 2. árþúsundsins f.Kr. Þeir voru með fyrstu írönsku þjóðflokkunum sem fluttust til svæðisins í kjölfar Bronsaldarhrunsins milli 1200 og 1150 f.Kr. Ríki þeirra var kallað Medía og tungumálið medíska, en engir textar hafa fundist á því máli. Medía stóð þar sem nú eru landið Aserbaísjan, Íranska Kúrdistan og vesturhluti Tabaristan.

Lágmynd frá Persepólis sem sýnir medíska og persneska hermenn. Medar eru með kúpta hjálma.

Þjóðflutningar Meda áttu sér stað á sama tíma og Mið-Assýríuveldinu hnignaði. Að auki stóðu bæði Elam og Babýlónía veikt. Þegar Ný-Assýríuveldið reis féll Medía í hendur þeirra á valdatíð Adad-nirari 3. sem ríkti frá 811 f.Kr. til 783 f.Kr. Medar gerðu bandalag við aðra þjóðflokka gegn Assýríu og lögðu Níníve undir sig 612 f.Kr. Þar með hrundi Ný-Assýríuveldið og Medaveldið reis í þess stað með Ekbatana sem höfuðborg. Kýros mikli lagði þetta ríki undir Persaveldi um 550 f.Kr.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.