Maga- og garnabólga

Maga- og garnabólga (stundum kölluð garnakvef eða magakvef þótt hún eigi ekkert skylt við kvef) er bólga í meltingarveginum: maga og þörmum. Meðal einkenna eru niðurgangur, uppköst og kviðverkur. Einnig getur fylgt þessu hiti, orkuleysi og vökvaskortur. Einkennin vara yfirleitt skemur en tvær vikur.

Vírusar sem valda maga- og garnabólgu: A) rótavírus, B) adenóvírus, C) nóróvírus og D) astróvírus.

Maga- og garnabólga orsakast oftast af vírusum, en bakteríur, sveppir og sníkjudýr geta líka valdið slíkum bólgum. Rótavírus er algengasta orsökin hjá börnum, en í fullorðnum er nóróvírus eða kampýlóbakter oftast um að kenna. Algengasta smitleiðin er með því að innbyrða menguð matvæli eða vökva eða samneyti við smitaða manneskju. Meðferð felst venjulega í því að innbyrða nægan vökva, en í alvarlegum tilfellum getur þurft að gefa næringu í æð. Oftast er óþarfi að gefa fúkkalyf en þau eru þó notuð á börn með blóðugan niðurgang.

Til að koma í veg fyrir smit er mælt með handþvottum með sápu og að drekka hreint vatn, brjóstagjöf fremur en notkun mjólkurdufts og réttri meðferð skólps. Árið 2015 var talið að 2 milljarðar tilfella hefðu komið upp í heiminum og 1,3 milljón dauðsföll af völdum maga- og garnabólgu. Börn í þróunarlöndum eru í sérstakri hættu. Árið 2011 voru tilfellin talin 1,7 milljarðar og dauðsföll barna undir fimm ára aldri 700.000 á heimsvísu. Í þróunarlöndum er talið að börn undir tveggja ára aldri fái allt að sex tilfelli á ári. Tíðnin minnkar með hækkandi aldri, meðal annars vegna ónæmis.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.