Machine qui rêve

bók um Sval og Val frá árinu 1998

Machine qui rêve (íslenska: Draumavélin) er 46. Svals og Vals-bókin og sú fjórtánda eftir þá Tome og Janry. Hún kom út á frummálinu árið 1998 en hefur enn ekki verið gefin út á íslensku.

Söguþráður breyta

Blaðakonan Bitla kemur til fundar við Val og biður hann um aðstoð við að rannsaka dularfulla starfsemi líftæknifyrirtækis. Valur er á leið til Balí og verður því úr að Svalur kemur til aðstoðar. Hann dulbýr sig og gerist sjálfboðaliði í rannsókn hjá fyrirtækinu. Flóttaleg aðstoðarkona laumar til hans skilaboðum um að flýja, rituð aftan á aðgangskort. Svalur læðist inn á rannsóknarstofu og bregður sýnilega.

Næst rankar Svalur við sér minnislaus í polli úti á götu. Hann staulast heim til sín við illan leik, en þar bíða skuggalegir menn sem reyna að skjóta hann. Svalur flýr á fund Bitlu, en aftur er honum veitt fyrirsát. Andlit hans birtist í öllum fjölmiðlum, þar sem hann er sagður háskalegur hryðjuverkamaður á flótta.

Smátt og smátt öðlast Svalur minnið aftur og áttar sig á að lausn gátunnar sé að finna í líftæknifyrirtækinu, þangað sem hann snýr aftur. Í ljós kemur að fyrirtækið hefur á laun stundað það að klóna menn og að flóttamaðurinn í sögunni hafi í raun ekki verið Svalur heldur eftirmynd hans. Hinn raunverulegi Svalur, Bitla, Valur og fulltrúar yfirvalda handtaka forsprakka fyrirtækisins, en aðstoðarkonan flóttalega reynist löggæslumaður í dulargervi.

Rannsóknarstofan er sprengd í loft upp, en Svalur og Bitla hjálpa fyrst hinum klónaða Sval að flýja án þess að nokkur viti. Sögunni lýkur þar sem Bitla og klónaði Svalur eru saman um borð í flutningaskipi á leið í burtu og virðast býsna náin.

Fróðleiksmolar breyta

  • Machine qui rêve er sú byltingarkenndasta og jafnframt sú umdeildasta í bókaflokknum. Hún er sú fjórtánda og síðasta eftir Tome og Janry, sem ákváðu að gjörbreyta útliti persónanna og gera þær raunsæislegri. Söguþráðurinn var sálfræðilegri en í fyrri bókum og frásagnaraðferðin nútímalegri, þar sem stokkið var fram og aftur í tíma. Skiptar skoðanir voru um ágæti bókarinnar meðal aðdáenda bókaflokksins og harðar deilur.
  • Seinni höfundar Svals og Vals-bókanna hafa ekki vikið að tilvist hins klónaða Svals í verkum sínum.
  • Í sögunni kemur fram að raunverulegt nafn Bitlu sé Sophie. Jafnframt er látið að því liggja að Svalur og Valur beri sjálfir önnur nöfn í raun og veru.
  • Svalur og Bitla eru nánari vinir í sögunni en í fyrri verkum bókaflokksins.
  • Svalur og Valur búa ekki í sömu íbúðinni í sögunni, öfugt við fyrri sögur.
  • Gæluíkorninn Pési kemur nálega ekkert við sögu í bókinni.
  • Engin sérstök ástæða er gefin fyrir því að líftæknifyrirtækið kóni menn, né útskýrt nákvæmlega hvernig hinum klónaða Sval hafi tekist að sleppa.