Mígandi

foss í Eyjafirði
(Endurbeint frá Mígindisfoss)

Mígandi eða Mígindisfoss er foss í Eyjafirði, rétt suður af Múlagöngum í Ólafsfjarðarmúla. Fossinn er ekki vatnsmikill. Hann er í allstórum læk sem kemur í smáfossum niður hlíðina og steypist síðan niður í fjöru fram af háum hömrum. Sjávarbjörgin á þessum slóðum og landið upp af þeim kallast Mígindi, sumir segja Mígildi og kalla fossinn Mígildisfoss. Fossinn Mígandi er áberandi kennileiti bæði af sjó og landi. Hann er talinn vera einn hæsti foss í Eyjafjarðarsýslu og er yfir 100 m hár. Þegar vindur stendur á land getur hann blásið undir fossbununa þannig að hún feykist í loft upp. Mígandi er nefndur í Landnámu en ekki verður séð þar hvort átt er við fossinn eða björgin.

Mígandi.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er getið um eyðikot yst á Upsaströnd sem hét Mígindi.