Skoll og Hati

(Endurbeint frá Mánagarmur)

Skoll (stundum ritað Sköll) og Hati Hróðvitnisson eru tveir úlfar í norræni goðafræði sem elta sólina og mánann yfir himinhvolfið. Skoll eltir Sól, sem ekur á vagni sínum um himininn, en Hati eltir bróður hennar, Mána. Báðir úlfarnir munu ná bráð sinni í ragnarökum: Skoll mun gleypa sólina en Hati mun gleypa tunglið.

Skoll og Hati elta Sól og Mána um himininn á mynd eftir J. C. Dollman (1909).

Ritaðar heimildir um Skoll og Hata

breyta

Í einu erindi Grímnismála er minnst á Skoll og Hata og talað um hvernig þeir elta sólina og mánann. Í erindinu er tekið fram að Hati sé sonur Hróðvitnis, sem er annað nafn á Fenrisúlfi. Óljóst er í kvæðinu hvort Skoll er einnig afkvæmi Fenris. Í Vafþrúðnismálum er það Fenrir sjálfur sem gleypir sólina og því er stundum talið að Skoll sé annað nafn á Fenri.[1]

 
Sköll heitir úlfr,
er fylgir eno skirleita goði
til varna viðar;
en annarr Hati,
hann er Hróðvitnis sonr,
sá skal fyr heiða brúði himins.[2]
 

Í Gylfaginningu má finna ítarlegri lýsingu á Skoll og Hata og ætterni þeirra. Í kvæðinu segir Hár Ganglera frá því að Sólin fari alltaf svo fljótt yfir himininn því að úlfurinn Skoll sé alltaf á hælum hennar og að hann muni gleypa hana í ragnarökum. Hati Hróðvitnisson elti hins vegar Mána og muni einnig ná honum áður en yfir ljúki. Gangleri spyr Háan síðan um ætterni úlfanna og Hár svarar:

 
Gýgr ein býr fyrir austan Miðgarð í þeim skógi, er Járnviðr heitir. Í þeim skógi byggja þær tröllkonur, er Járnviðjur heita. In gamla gýgr fæðir at sonum marga jötna ok alla í vargs líkjum, ok þaðan af eru komnir þessir úlfar. Ok svá er sagt, at af ættinni verðr sá einna máttkastr, er kallaðr er Mánagarmr. Hann fyllist með fjörvi allra þeira manna, er deyja, ok hann gleypir tungl, en stökkvir blóði himin ok loft öll. Þaðan týnir sól skini sínu, ok vindar eru þá ókyrrir ok gnýja heðan ok handan[3]
 

Í þessari frásögn er úlfurinn sem gleypir tunglið kallaður Mánagarmur. Líklega er hér um að ræða viðurnefni á Hata þar sem fyrra erindi í kvæðinu tekur fram að það sé Hati sem gleypir tunglið.

Túlkanir

breyta

Hugsanlegt er að hugmyndin um Skoll og Hata sé upprunnin í ljósdílum sem sjást stundum fylgja sólinni á himninum, svokölluðum hjásólum. Þegar slíkir ljósdílar sjást beggja megin við sólina er talað um að sólin sé í úlfakreppu.[4] Í Þjóðsögum sínum greinir Jón Árnason frá því að þegar ljósdíll fer á undan sólu sé talað um gílaferð og um hjásólina sem gíl. Ef gíll fer á undan sólu en enginn á eftir henni er það talið boða slæmt veður. Þaðan er kominn málshátturinn „Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni“.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. Lexikon der germanischen Mythologie, Alfred Kröner, Stuttgart 1984. ISBN 3-520-36801-3 — 3. útgáfa, endursamin: Kröners Taschenausgabe, Band 368, 2006, bls. 292.
  2. „Grímnismál“. Snerpa. Sótt 25. mars 2019.
  3. „Gylfaginning“. Heimskringla.no. Sótt 25. mars 2019.
  4. „Hvað þýðir máltækið "Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni"? Er hér um yfirfærða merkingu að ræða?“. Vísindavefurinn.
  5. Jón Árnason (1862). „Teikn á himni“.