Lundúnabiblía, 1866, er áttunda heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku.

Á titilblaði stendur: BIBLÍA, það er Heilög ritning. Endurskoðuð útgáfa. Prentuð í prentsmiðju Spottiswoodes í Lundúnum, á kostnað Hins breska og erlenda biblíufélags.

Undirbúningur útgáfunnar hófst árið 1861. Hið íslenska biblíufélag fékk þá dr. Pétur Pétursson, síðar biskup, og Sigurð Melsteð, sem báðir voru prestaskólakennarar, til „að laga og endurbæta hina íslensku útleggingu á Nýja testamentinu“. Sama ár kom fulltrúi Hins breska og erlenda biblíufélags til Íslands (Isaac Sharp), og bauð fram styrk til að gefa út Nýja testamentið, svo hægt væri að selja það vægu verði. Þeir Pétur og Sigurður endurskoðuðu Nýja testamentið og hluta af Gamla testamentinu (Davíðssálma og nokkrar af spámannabókunum). Nýja testamentið kom svo út í Oxford árið 1863, í 10.000 eintökum, prentað með latínuletri, en áður hafði gotneskt letur verið allsráðandi í biblíuútgáfum hér á landi. Upplagið komst ekki til Íslands fyrr en árið 1864.

Biblían kom öll út í Lundúnum 1866, einnig með latínuletri í fyrsta sinn. Nýja testamentið var þá uppselt og var það endurprentað í Oxford sama ár. Alls hafði verið breytt um 4.000 - 5.000 biblíuversum frá síðustu útgáfu.

Um þessa Biblíuútgáfu spunnust hatrammar deilur milli tveggja manna sem báðir störfuðu á Englandi. Þetta voru þeir Guðbrandur Vigfússon í Oxford og Eiríkur Magnússon í Cambridge, og varð úr ævilangur fjandskapur milli þeirra. Þetta virðist gerast við hverja nýja Biblíuútgáfu, mismikið að vísu.

Brot Lundúnabiblíunnar er minna en Reykjavíkurbiblíu. Upplag er ekki þekkt.

Heimild

breyta
  • Sigurður Ægisson: Grein í Morgunblaðinu 8. október 2006.