Kjarvalsstaðir eru sýningarhús í eigu Listasafns Reykjavíkur og standa á Miklatúni í Reykjavík. Þeir eru kenndir við myndlistarmanninn Jóhannes Kjarval. Fyrsta skóflustunga að þeim var tekin árið 1966 og húsið var formlega tekið í notkun 24. mars 1973, tæpu ári eftir lát Kjarvals.

Kjarvalsstaðir

Kjarval ánafnaði Reykjavíkurborg safn af listaverkum og persónulegum munum árið 1968. Hluti gjafarinnar var sýndur í fyrsta sinn við opnun Kjarvalsstaða árið 1973. Safnið hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin; bæði hafa verk verið keypt en einnig hafa ýmsir einstaklingar fært safninu ómetanlegar gjafir.[1]

Saga breyta

Kjarvalsstaðir voru önnur byggingin sem hönnuð var sérstaklega og byggð til almennra myndlistarsýninga í Reykjavík. Sú fyrsta var Listamannaskálinn við Austurvöll.

Árið 1964 ákvað borgarráð Reykjavíkur að mótaður skyldi lystigarður í borginni með höggmynd af skáldinu Einari Benediktssyni í tilefni 100 ára árstíðar hans og í kjölfar þess var tekin ákvörðun um að reisa í garðinum listasafn með veitingasölu til heiðurs listmálaranum Jóhannesi Sveinssyni Kjarval sem varð áttræður ári seinna.

Kjarval tók fyrstu skóflustunguna að Kjarvalsstöðum á 180 ára afmælisári Reykjavíkurborgar í ágúst 1966, en lést ári áður en húsið var tekið formlega í notkun árið 1973. Fyrir tilkomu ráðhúss Reykjavíkur voru Kjarvalsstaðir notaðir undir veigameiri móttökur á vegum Reykjavíkurborgar.[2]

Byggingin breyta

Bygginguna teiknaði Hannes Kr. Davíðsson. Staðsetning Kjarvalsstaða yst til norðurs á túninu tekur mið af heildarmynd garðs og byggingar, þar sem byggingin ber yfirbragð fínlegs listaskála.

Skálinn er byggður upp af tveimur álmum sem tengjast um húsagarð með grannri miðálmu. Hann er tiltölulega lokaður til norðurs að götunni en opnast mót suðri að sólarbirtu og gróðursælum garðinum.

Hannes var undir áhrifum af japönskum innblæstri í norrænan módernisma, þar sem áhersla var lögð á ómeðhöndluð náttúruefni bygginga ásamt léttleika og einföldun allra drátta. Léttleika Kjarvalsstaða má lesa af burðarvirki hússins þar sem grannar súlur bera uppi lárétt, koparklætt þakið. Þetta gefur svigrúm til frelsis í útfærslu veggja þar sem þeir gegna engu hlutverki í burði þaksins.[2]

Tilvísanir breyta

  1. UTD_Vefumsjon (14. júlí 2015). „Verk Kjarvals“. listasafnreykjavikur.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. apríl 2021. Sótt 12. apríl 2021.
  2. 2,0 2,1 Ónafngreindur (28. ágúst 2014). „Saga Kjarvalsstaða“. listasafnreykjavikur.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. apríl 2021. Sótt 12. apríl 2021.

Tenglar breyta

   Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.