Leikjarannsóknir (e. game studies eða ludology) eru rannsóknir á leikjum, leikjaspilun, spilurum, leikjasamfélögum og leikjamenningu. Leikjarannsóknir eru menningarfræði sem fjallar um allar gerðir leikja á ýmsum tímum mannkynssögunnar. Þessi fræðigrein tengist þannig mörgum fræðasviðum svo sem þjóðfræði og rannsóknum tengdum menningararfi, félagsfræði og sálfræði, leikjahönnun, leikjaspilun og hlutverki leikja í menningu og samfélagi. Tölvuleikjafræði er ein grein leikjarannsókna en leikjarannsóknir eru víðfeðmara hugtak og ná yfir íþróttaleiki og borðleiki og fleira. Fyrir tíma tölvuleikja voru leikjarannsóknir einkum staðsettar innan mannfræði.[1]

Það eru mörg svið innan leikjarannsókna svo sem að skoða hvernig leikir hafa áhrif í samfélagi og á sálarlíf þeirra sem spila og hvernig leikir skapa merkingu og endurspegla samfélag og menningu. Einnig að skoða og greina leikjahönnun og leikjavirkni og fagurfræði leikja. Þá eru þættir eins og tölvugrafík, gervigreind og netvirkni sérstaklega tengd tölvuleikjum.

Í kringum árþúsundamótin var ágreiningur milli spilunarsinna (e. ludologists) og frásagnarsinna (e. narratologists) áberandi. Frásagnarsinnar litu á tölvuleiki eins og frásögn eða sögu og vildu nota greiningaraðferðir frá bókmenntu og fjölmiðlafræðum en spilunarsinnar bentu á þörf á nýjum nálgunum og hugtökum til að rannsaka leiki.[2][3]

Tilvísanir breyta

  1. California, About The Author Richard E. Mayer Professor of Psychology at the University of; Barbara, Santa. „Three Genres of Game Research | Design Toolbox - with Gil Dekel and friends“ (bresk enska). Sótt 27. september 2019.
  2. Gonzalo Frasca (2003). „Simulation versus narrative: Introduction to Ludology“ (PDF).
  3. Jesper Juul,„The definitive history of games and stories, ludology and narratology – The Ludologist“ (bandarísk enska). Sótt 27. september 2019.