Landnám ríkisins var opinber íslensk ríkisstofnun sem starfaði frá 1946 til 1984 og hafði með höndum stofnun nýbýla í landbúnaði og margvísleg önnur tengd verkefni. Landnám ríkisins sá um að skipuleggja ræktun lands og stofnun nýrra bændabýla með það fyrir augum að efla landbúnað, auka atvinnu og styrkja efnahagslíf landsins. Stofnunin heyrði undir landbúnaðarráðuneytið og var landnámsstjóri framkvæmdastjóri hennar.

Stofnun og upphaf breyta

Lögin um landnám ríkisins og húsbyggingar í sveitum, nr. 108 9. okt. 1941 með breytingum 1942, kváðu á um landnám við þorp, kaupstaði og í sveitum landsins með fjárveitingum frá ríkissjóði. Í fyrsta lagi var um ræktun lands og undirbúning ræktunar að ræða, þar sem skilyrði til þess voru góð og landið í eigu ríkisins. Einnig var heimilt að kaupa land til ræktunar. Nýbýlastjórn hafði umsjón með öllum framkvæmdum vegna landnámsins. Landám við þorp og kaupstaði var miðað við ræktað land sem væri um 2 hektarar að flatarmáli en líka nauðsynlegt beitiland. Ríkið gerði girðingar og fullræktaði landið. Í sveitum var miðað við, að tún hvers býlis gæti orðið minnst 10 hektarar auk beitilands. Ríkið kostaði girðingar og framræslu landsins og einnig fullræktun á 4 hekturum eða meira. Ríkið lét einnig í öllum tilvikum leggja nauðsynlega vegi, vatnsleiðslur og frárennslislagnir. Framkvæmdir við landnám í sveitum var miðað við að stofna ekki minna en fimm samliggjandi býli. Fasteignamat á hverri jörð og lóð skyldi láta gera þegar framkvæmdum væri lokið þar. Jarðirnar skyldi leigja með erfðaleigu og giltu um það lög nr. 8 frá 1936, um óðalsrétt og erfðaábúð. Ábúendur áttu kost á að kaupa jarðirnar á fasteignamatsverði en uppfylla þurfti þá skilmála sem almennt giltu um sölu þjóð- og kirkjujarða til einstaklinga. Lögin um landnám ríkisins frá 1941 byggðu á eldri lögum frá 1936 sem voru nefnd nýbýlalögin.[1]

Skilyrði og reglur breyta

Um byggingar íbúðarhúsa, útihúsa og viðbótarræktun lands giltu sérstakar reglur, og voru þær mismunandi eftir hvort landnám var í sveit eða nálægt kaupstöðum eða þorpum. Um slíkar byggingar og ræktun í sveit giltu lánskjör sem greint er frá í lögum nr. 8 frá 1. febr. 1936, um erfðaábúð og óðalsrétt. Um býli nálægt kaupstöðum og þorpum giltu lög nr. 31 frá 1929 um byggingar og landnámssjóð. Á meðan landnámi og byggingu stóð var viðkomandi ábúendum heimilt að leggja fram vinnu sína við verkið, en að því loknu var vinnuframlag þeirra metið og lagt að jöfnu við tiltekna eign í mannvirkjunum. Skylt var Nýbýlastjórn að fá umsögn sveitarstjórnar á svæðinu og tillögur hennar, og greinargerð um hver áhrif stofnun nýbýlanna hefði á annan landbúnað sem fyrir var á svæðinu og afkomu þeirra sem hann stunduðu, svo og á sveitarfélagið. Stjórn Búnaðarfélags Íslands hafði úrskurðarvald ef ágreiningur varð milli viðkomandi sveitarstjórnar og Nýbýlastjórnar, en endanlegt úrskurðarvald hafði landbúnaðarráðherra.

  • Í lögum um jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa koma fram ýmis skilyrði og fyrirvarar sem máli skipta vegna landnáms ríkisins, og eru þessi atriði helst:
  • Landið mátti ekki vera í eigu viðkomandu hrepps, kauptúns eða þorps.
  • Samþykkt hafi verið formleg beiðni á fullgildum fundi í hreppsnefnd viðkomandi staðar að gera kaupin.
  • Sveitarfélagið hafi fjárhagslegt bolmagn til kaupanna.
  • Samþykki Búnaðarfélags Íslands.
  • Hlutaðeigandi sveitarfélag fékk ævarandi leiguréttindi til landsins frá ríkinu.
  • Sveitarstjórnir gátu keypt land sem ríkið eignaðist með þessum hætti á kostnaðarverði, en óheimilt var að selja það nema samþykki ríksstjórnar Íslands kæmi til.
  • Ef sveitarstjórn stóð ekki við samkomulag um leigugreiðslur af landi eða lóðum, eða ef land spillist vegna vanrækslu, eða verðrýrnun varð á landinu af öðrum orsökum, var ríkissjóði leyfilegt að taka landið aftur til sín.
  • Ef eigandi lands vildi ekki selja ríkinu það var heimilt að taka landið eignarnámi. Í slíku tilviki skyldi eigandinn halda eftir nægilega miklu rými fyrir búskap eða annað sem hann stundaði þar, og einnig þurfti að leita álits Búnaðarfélags Íslands áður en eignarnám færi fram.
  • Fela mátti Jarðakaupasjóði ríkisins framkvæmda laganna.[2][3]

Við stofnun Landnáms ríkisins var margs að gæta. Lögð voru fram tvö frumvörp á Alþingi 1946, annað um stofnun Ræktunarsjóðs Íslands og hitt um um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum. Samkvæmt þessum frumvörpum var ákveðið að stofna embætti landnámsstjóra og embætti skipulagsstjóra íslenskra byggða. Samkvæmt lýsingu á skyldum skipulagsstjórans þurfti hann að samþykkja lánsumsóknir um nýjar byggingar á jörðum með tilliti til þess hversu vel nýbýli séu staðsett með tilliti til samgangna, síma og dreifingu rafmagns.[4] Tillögur um hækkun jarðræktarstyrks með það fyrir augum að öll heyöflun í landinu kæmist á véltækt land innan 10 ára voru felldar á Alþingi 1946.[5] Annað mál sem varðaði landbúnaðinn voru áætlanir um ný byggðahverfi eða smáþorp, svonefnd nýbýlahverfi. Að þessu var stefnt með lögunum um landnám ríkisins, en þar þar var gert ráð fyrir að ríkið kæmi upp samliggjandi býlum á hentugum ræktunarsvæðum. Lögin gerðu ráð fyrir fastri fjárveitingu til þessa en það var fellt á Alþingi 1944 og 1945.[6]

Hugmyndir um hlutverk breyta

Árið 1945 var staðan sú að lögin um Landnám ríkisins höfðu verið samþykkt fyrir nokkrum árum, en framkvæmdir samkvæmt lögunum voru takmarkaðar við fremur lágar fjárveitingar. Nýbýlalöggjöfin hafði að markmiði að styðja nýja bændur til að hefja búskap á hentugum stöðum í sveitum. Til þess átti að nota land í ríkiseign. Hinsvegar átti að skipta löndum jarða sem fyrir voru í minni einingar, t.d. með því að ríkið keypti þær og skipti þeim síðan upp. Þá voru uppi hugmyndir um samvinnubyggðir í nýbýlahverfunum. Hugmyndin var sú að bændur gætu stofnað til samvinnu eða einskonar samyrkjubúskapar um tilteknar búgreinar sín á milli.

Árið 1940 hafði Hermann Jónasson, þáverandi landbúnaðarráðherra, skipað Steingrím Steinþórsson ásamt Ingimar Jónssyni og Valtý Stefánssyni í nefnd til að gera tillögur um heppilega staðsetningu nýrra byggðahverfa í sveitum landsins. Nefnd þessi lagði til að eftirtaldar jarðir í Ölfusi yrðu keyptar af ríkinu með þetta í huga: Hvammur I og II, Kirkjuferja og Kirkjuferjuhjáleiga, Þórustaðir, Árbær og Hellir.

Í grein sem Steingrímur Steinþórsson alþingismaður, nýbýlastjóri 1936—1941 og í nýbýlastjórn frá 1941-1966, skrifaði í ársbyrjun 1945 er bent á eftirfarandi sem áhersluatriði um stofnun Landnáms ríkisins:

Dreifbýli Íslands varð að styrkja og efla framleiðslu þar. Ef byggð landsins færðist að langstærstum hluta til þéttbýlis við sjávarsíðuna myndu menningarverðmæti glatast. Sauðfjárræktin er og var  önnur stærsta búgrein landsins, og hana er ekki hægt að stunda nema í sveitum. Fyrirsjáanlegt var að talsverður fjöldi jarða myndi fara í eyði. Til þess að ungt fólk fengist til að búa í sveit og stunda búskap væri nægilegt framboð á landrými og opinber stuðningur við að hefja búskap nauðsynlegur. Nauðsyn væri á að rafvæða sveitirnar sem fyrst, leggja síma og hitaveitur, leggja vegi og bæta samgöngur, þurrka landið og stækka tún auk þess að vélvæða landbúnaðinn. Það síðarnefnda hafi verið erfitt á árum heimsstyrjaldarinnar síðari, en standi vonandi til bóta. Þó sé alveg ljóst að ríkið verði að hafa forystu í þessum efnum með stórfelldum fjárframlögum á öllum þessum sviðum. Í viðbót við þetta þurfi að efla sheimilisiðnað í sveitum, ullarvinnslu, framleiðslu smærri hluta úr tré svo sem leikfanga og handverkfæra, til að eldra fólk og fatlað geti haldið áfram að búa þar. Auk þess þurfi að efla menningarstarfsemi og skemmtanalíf í sveitunum. Allt séu þetta þættir í að styðja búsetu í dreifbýli og stöðva þann fólksflótta sem hafi verið úr sveitum í þéttbýli. Taldi Steingrímur allt benda til þess að ríkið yrði jafnvel að byggja öll hús á mörgum nýjum jörðum.[7][8]

Þúsund nýbýli stofnuð breyta

Með stofnun Landnáms ríkisins var hvatt til búsetu í sveitum. Fyrstu tuttugu árin eftir stofnun þess voru nærri eitt þúsund nýbýli sett á fót víðsvegar um landið.[9]

Samkvæmt athugun sem Landnám ríkisins birti árið 1965 voru meira en 7200 skráðar bújarðir á Íslandi. Um fjórðungur þessara jarða eða 1800 voru í eyði. Um þessar eyðijarðir komust menn að þeirri niðurstöðu að aðeins helmingur þeirra geti talist byggilegur miðað við nútímakröfur um landbúnað. Talað var um að eðlilegt væri að langflestir bændur ættu jarðir sínar, en um hinar sem óbyggilegar voru væri best að þær væru í eigu íslenska ríkisins. Með því að vera í ríkiseign væru skapaðar forsendur fyrir ráðstöfunarrétti ríkisins yfir þessu landi. Væri þá auðvelt að sameina eyðijarðirnar við aðrar jarðir í ábúð, koma þeim í byggilegt horf eða breyta þeim í afréttir, allt eftir því sem hentugt væri á hverjum stað.[10]

Grænfóðurverksmiðja í Gunnarsholti breyta

Árð 1961 var stofnuð grænfóðurverksmiðja í Gunnarsholti. Verksmiðjan framleiddi heyköggla úr íslensku grasi og grænfóðri sem var hraðþurrkað og ræktað á staðnum, og einnig grasfræ til sáningar. Landnám ríkisins rak verksmiðjuna í umboði landbúnaðarráðuneytisins. Í fyrstunni var ræktað bygg, en síðar tilteknar íslenskar grastegundir. Verksmiðjan sparaði umtalsverðan gjaldeyri því framleiðsla hennar kom í stað erlendra fóðurvara. Sem dæmi um framleiðsluna þá voru framleidd 1436 smálestir af graskögglum í verksmiðjunni árið 1975. Árið 1979 var framleiðslan 2713 smálestir og 3.185 smálestir árið 1982. Vaxandi eftirspurn var eftir framleiðslu verksmiðjunnar og þóttu graskögglar gefast vel í sauðfjárrækt til vorfóðrunar og um fengitímann, og einnig almennt. Einnig voru graskögglar notaðir handa kúm.[11][12][13][14]

Skráning landamerkja breyta

Árið 1972 hófst Landnám ríkisins handa um stórt verkefni. Þetta var að skrá og ganga frá landamerkjum allra íslenskra jarða. Verkefnið sunnanlands hófst undir Eyjafjöllum. Allar jarðir skyldu nákvæmlega mældar og þessar mælingar m.a. staðfestar með ljósmyndun úr flugvélum. Reistar voru stangir á endamörkum landamerkja, síðan var hvítur dúkur festur niður með hælum og flugvél útbúin myndavél flaug síðan yfir og tók myndir. Var lögð áhersla á að gera þetta allt sem nákvæmast.[15]

Landnámsstjórar breyta

Aðeins tveir menn störfuðu sem landnámsstjórar við Landnám ríkisins. Þeir voru, í réttri tímaröð, Pálmi Einarsson, f. 22.08. 1897, d. 19.09. 1985, var landnámsstjóri frá 1947.[16] Við starfinu tók Árni Jónsson, f. 19.01. 1914, d. 3.3. 2008.[17][18] Stefán Himar Sigfússon, f. 20. ágúst 1934, d. 24. febrúar 2002, hóf störf hjá Landnámi ríkisins árið 1960 og varð fljótlega fulltrúi landnámsstjóra. Hann var verksmiðjustjóri grænfóðurverksmiðjunnar í Gunnarsholti um langt árabil. Árið 1973 fluttist hann til Landgræðslu ríkisins þar sem hann varð fulltrúi landgræðslustjóra, og sá þar m.a. um áburðar- og frædreifingu með DC-3 flugvél landgræðslunnar, Páli Sveinssyni.[19][20]

Landnám ríkisins lagt niður breyta

Í mars 1984 lagði ríkisstjórnin fram frumvarp á Alþingi um að leggja Landnám ríkisins niður. Öll verkefni stofnunarinnar, svo sem stofnun nýbýla, endurbygging jarða og húsa, umsjón og vinna við jarðaskrá o.s.frv. færðist til landbúnaðarráðuneytisins. Hvað snerti rekstur grænfóðurverksmiðja eða heykögglaverksmiðja, eins og þær voru oftast nefndar, og sem Landnám ríkisins hafði séð um, var áætlað að setja ný lög um stofnun og rekstur slíkra verksmiðja.[21]

Tilvísanir breyta

  1. „Byggingarmál sveitanna og úthlutun endurbyggingarstyrks. Steingrímur Steinþórsson“.
  2. „Lög um landnám ríkisins“.
  3. „Hugleiðingar um nýbýlamálið“.
  4. „Stjórnarliðið lætur undan“.
  5. „Vonlaus „sókn".
  6. „Á stjórnarliðið að stöðva framfarir landbúnaðarins?“.
  7. „Byggðahverfi í sveitum“.
  8. „Steingrímur Steinþórsson“.
  9. „Landbúnaðarstefnan og búvörusamningar“.
  10. „1/4 jarða í eyði“.
  11. „Kaupa fóðurbæti rétt við túngarðinn“.
  12. „Búnaðarþing. Mál nr. 7 og 29“.
  13. „Frærækt“.
  14. „Hvað hefur verið gert til þess að nýta þessa möguleika?“.
  15. „Sennilega tólf ára starf framundan“.
  16. „Pálmi Einarsson, landnámsstjóri“.
  17. „Árni Jónsson sextugur“.
  18. „Árni Jónsson“.
  19. „Starfsskýrsla fulltrúa landgrœðslustjóra“.
  20. „Stefán Hilmar Stefánsson“.
  21. „Stjórnarfrumvarp: Landnám ríkisins lagt niður“.