Lady Z

bók úr Sval og Val sagnaflokknum, eftir Munuera

Lady Z, (Íslenska Fröken Z) er þriðja bókin í sjálfstæðri ritröð um Zorglúbb úr sagnaflokknum um Sval og Val, sem og dóttur hans á unglingsaldri. Höfundur hennar er listamaðurinn Munuera sem um tíma var aðalhöfundur Svals & Vals-bókaflokksins. Bókin kom út í Belgíu árið 2019, en hefur ekki verið þýdd á íslensku.

Söguþráður

breyta

Sagan hefst í Graceland í Bandaríkjunum þar sem Zorglúbb og Zandra dóttir hans eru á ferðalagi. Hún gantast með það við föður sinn að hann þurfi að eignast kærustu, sem hann telur af og frá. Zandra er unnandi rokkkóngsins Elvis Presley, en Zorglúbb er með annað á prjónunum. Hann rænir líkamsleifum söngvarans og klónar hann fyrir rússneskan glæpaforingja sem dáir Elvis. Eftir að hafa þegið stórfé í greiðslu forðar Zorglúbb sér því hann veit sem er að klónuðu eftirmyndirnar eru óstöðugar. Þegar hinn nýskapaði Elvis breytist bókstaflega í graut hyggur Rússinn á hefndir.

Í höfuðstöðvum sínum heldur Zorglúbb áfram að þróa klónunartæknina. Hann gerir fjölmargar eftirmyndir af sjálfum sér, sem allar eru fremur misheppnaðar og ýkja upp einstaka þætti í fari fyrirmyndarinnar. Eitt klónið sker sig þó úr, því það reynist vera kvenútgáfa af Zorglúbb. Fröken Z, eins og þessi nýi kven-Zorglúbb er þegar nefnd, reynist mun betur heppnuð en karlklónin. Zorglúbb dregst að þessari kvenútgáfu af sér og þau bregða sér á stefnumót í Feneyjum sem útsendarar rússneska glæpamannsins spilla.

Fröken Z heldur á fund Rússans og segist ásæla höfuðstöðvar Zorglúbbs og lofar að útbúa herdeild af klónuðum Elvisum fyrir glæpaforingjann og hjálpa honum að koma Zorglúbb fyrir kattarnef. Við tekur blóðugur bardagi þar sem Zorglúbb beitir fyrir sig klónuðum risaeðlum. Það kviknar í höfuðstöðvunum og við það bráðna öll klónin, að Fröken Z einni undanskilinni. Hún og Rússinn skjóta Zorglúbb með köldu blóði og skilja hann eftir til að deyja.

Zandra er vitni að morðinu og verður miður sín, en uppgötvar að um sjónarspil er að ræða. Fröken Z lék tveimur skjöldum til þess að sannfæra glæpaforingjann um að hann hefði náð fram hefndum. Gefið er í skyn að samskiptum Zorglúbbs og Fröken Z sé ekki lokið.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Í tveimur fyrstu bókum ritraðarinnar er táningsstúlkan Zandra aðalsöguhetjan, en í þessari sögu er hún í algjöru aukahlutverki á meðan Zorglúbb og Fröken Z bera uppi atburðarásina.