La fille du Z

bók um Sval og Val

La fille du Z, (Íslenska Dóttir Zorglúbbs) er fyrsta bókin í sjálfstæðri ritröð um Zorglúbb úr sagnaflokknum um Sval og Val, sem og dóttur hans á unglingsaldri. Höfundur hennar er listamaðurinn Munuera sem um tíma var aðalhöfundur Svals & Vals-bókaflokksins. Bókin kom út í Belgíu árið 2017, en hefur ekki verið þýdd á íslensku.

Söguþráður

breyta

Sagan hefst á göngugötu fyrir utan kvikmyndahús í Brüssel þar sem táningsstúlkan Zandra og vinur hennar André eru að koma af stefnumóti á hasarmynd. Þau kyssast, en um leið koma torkennileg hátækniloftför aðvífandi, elta þau og fanga. André verður skelfingu lostinn, en Zandra áttar sig strax á að hér er kominn faðir hennar Zorglúbb.

Zorglúbb er snjall vísindamaður sem hefur yfir að búa ótrúlegum tæknibúnaði og vélmennaher. Zorglúbb elskar dóttur sína heitt en ofverndar hana, sem veldur harkalegum deilum þeirra á milli. Einkaþjónn Zorglúbbs, ofurgreinda vélmennið Frédzorg, reynir árangurslaust að ráðleggja húsbónda sínum um uppeldismál.

André raknar út rotinu í höfuðstöðvum Zorglúbbs og rambar á herbergi Zöndru. Zorglúbb rekst á piltinn og ærist af reiði en í sömu andrá berast fregnir af komu hershöfðingja nokkurs, svo Zorglúbb lætur nægja að frysta piltinn með hjálp zor-geisla. Hershöfðinginn er kominn til þess að kaupa vopn, en Zorglúbb fjármagnar vísindastörf sín með vopnasölu. Að þessu sinni falast hershöfðinginn eftir „skrímslinu“, ofurfullkomnu vélmenni sem Zorglúbb hefur hannað.

Zorglúbb harðneitar þessari bón en í ljós kemur að hershöfðinginn og menn hans hyggjast fá sitt fram með góðu eða illu. Hópur hermanna kemur aðvífandi en Zandra, Frédzorg og André, sem er enn hálffrosinn, leggja á flótta. Í æsilegum eltingarleiknum uppgötvast að Zandra býr yfir ofurmannlegum eiginleikum – hún er hið fullkomna vélmenni sem hershöfðinginn ásælist.

Zorglúbb bjargar Zöndru og félögum hennar, en hún gengur á föður sinn sem játar að tilvera hennar byggir á einni stórri lygi. Hún er ekki stúlka af holdi og blóði heldur fullkomið vélmenni. Zandra bregðst illa við og stingur af. Eftir nokkra umhugsun snýr hún þó til baka og bjargar föður sínum úr klóm hershöfðingjans illa. Viku síðar bregða Zandra og André sér í kvikmyndahús á ný og kyssast að myndinni lokinni, en Zorglúbb sýnir stillingu.

Fróðleiksmolar

breyta
  • Munuera hafði tekist á við persónu Zorglúbbs í Rótum Z og þá þegar orðið hugfanginn af honum. Löngu eftir að Dupuis-útgáfan lét þá Morvan og Munuera hætta sem aðalhöfunda Svals & Vals, hafði Munuera sjálfur frumkvæði að því að fá að semja sjálfstæðar sögur um Zorglúbb.
  • Sagan hefst á að Zandra og André ræða um hasarmyndina sem þau höfðu nýlokið við að horfa á. Zandra flytur þar innblásna ræðu um það metnaðarleysi kvikmyndaframleiðenda að reyna sífellt að búa til hliðarsögur um aukapersónur úr vinsælum sagnaflokkum. Þar er um augljósan brandara að ræða, enda bókaflokkurinn um ævintýri Zorglúbbs af nákvæmlega þeim toga.