Louis Bonaparte

(Endurbeint frá Lúðvík Bonaparte)

Louis Napoléon Bonaparte (fæddur Luigi Bonaparte; 2. september 1778 – 25. júlí 1846) var yngri bróðir Napóleons Bónaparte og var konungur Hollands frá 1806 til 1810 með stuðning bróður síns. Sem slíkur var hann þekktur sem Louis 1. (Lodewijk 1. á hollensku; Loðvík 1. á íslensku).

Louis Bonaparte eftir Charles Howard Hodges.

Louis var fimmta barn og fjórði sonur Carlo Buonaparte og Letiziu Ramolino sem komst á legg. Hann fæddist á Korsíku líkt og systkini sín, en Frakkar höfðu lagt eyjuna undir sig tæpum áratug áður en Louis fæddist. Louis fylgdi eldri bræðrum sínum í franska herinn og naut stuðnings Napóleons. Árið 1802 kvæntist hann stjúpfrænku sinni, Hortense de Beauharnais, dóttur Jósefínu keisaraynju, konu Napóleons.

Árið 1806 stofnaði Napóleon konungsríkið Holland í stað batavíska lýðveldisins og gerði Louis að konungi nýja ríkisins. Napóleon ætlaðist ekki til þess að Holland yrði meira en leppríki en Louis vildi ólmur vera eins sjálfstæður og mögulegt var og varð reyndar mjög vinsæll meðal nýrra þegna sinna. Napóleon varð brátt leiður á óstýrilæti bróður síns og innlimaði Holland því aftur inn í franska keisaradæmið árið 1810. Louis flýði til Austurríkis í útlegð og bjó þar til æviloka. Sonur hans varð síðar keisari síðara franska keisaradæmisins undir nafninu Napóleon III.

Heimild

breyta