Línakradalur er grunnur, mýrlendur dalslakki sunnan við Vatnsnesfjall í Vestur-Húnavatnssýslu en fyrir sunnan dalinn er Miðfjarðarháls. Dalurinn er sviplítill og þar skiptast á mýrasund og lág holt en hann er grösugur og gott sauðaland og þar eru nokkrir bæir. Þjóðvegur 1 liggur um Línakradal milli Miðfjarðar og Víðidals.

Nafnið hefur verið talið benda til línræktar en margir telja þó sennilegra að það sé komið af því að í mýrunum í dalslakkanum óx mikið af fífu, sem hafi minnt Skinna-Björn, landnámsmann í Miðfirði og Línakradal, eða aðra frumbyggja á línakra í heimalöndum sínum.

Skáldkonan Nína Björk Árnadóttir var fædd á Þóreyjarnúpi í Línakradal en flutti þaðan um eins árs aldur. Förumaðurinn Jóhann Bjarnason beri var frá Vigdísarstöðum í Línakradal. Ættarnafnið Líndal er dregið af heiti Línakradals en að minnsta kosti þrjár ótengdar ættir munu hafa tekið það upp.